Ungt greni á skógræktarsvæði
Ungt greni á skógræktarsvæði

Umræðu er þörf

Annar þemadagur vetrarins var haldinn í dag í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri á Akureyri þar sem Skógrækt ríkisins er með skrifstofur ásamt Norðurlandsskógum. Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga, ræddi um vaxtarkröfur sem gerðar eru til grenis og greindi frá könnun sem hún hefur gert meðal 17 skógfræðinga á því hvar þeim fyndist hentugt að rækta greni og hvar ekki, hvaða tegundir og svo framvegis. Í ljós kemur að nokkuð skiptar skoðanir eru á notkun grenis meðal skógfræðinganna þótt flestir mæli helst með ræktun þess í gras- og blómlendi eða þar sem jarðvegur er nógu djúpur og frjósamur.

Þá er greinilegt að vænlegast þykir að leggja áherslu á sitkagreni og sitkabastarð en á Norðurlandi hefur nær eingöngu verið ræktaður sitkabastarður á síðari árum. Blágreni, hvítgreni og rauðgreni þykja ekki hentugar tegundir nema til skrauts og rauðgrenið helst inn í eldri skóg þar sem skjól er gott. Á fundinum kom í ljós að fólki þykir þörf á að fá mikla umræðu um greni og notkun þess í skógrækt og líka meiri rannsóknir. Fundurinn var vel sóttur. Um tuttugu manns komu og hlýddu á erindi Valgerðar og tóku þátt í umræðum.