Forsíða 47. tölublaðs Rits Mógilsár
Forsíða 47. tölublaðs Rits Mógilsár

Út er komið 47. tölublaðið af Riti Mógilsár með útdráttum og smágreinum höfunda sem fluttu erindi eða sýndu veggspjöld á ráðstefnunni. Rit Mógilsár er vettvangur fyrir fræðilegt efni frá sérfræðingum Skógræktarinnar og samstarfsfólki þeirra og hefur komið út frá árinu 2000. Eldri rit frá Mógilsá hafa nú verið skönnuð og birt á vef Skógræktarinnar einnig.

Titill hins nýja tölublaðs er Fagráðstefna skógræktar 2022 − útdrættir erinda og veggspjalda. Rit Mógilsár kemur út óreglulega eftir því sem þörf er á, oftast með stökum greinum í hverju tölublaði en einnig með söfnum greina eða útdrátta frá t.d. ráðstefnum og fundum. Útgáfan er nú orðið eingöngu rafræn á prentanlegu pdf-formi, nema sérstök ástæða þyki til prentaðrar útgáfu einnig. Ritið hefur komið út með þessu heiti frá aldamótum en þar á undan gaf Mógilsá út ýmis rit sem fram undir þetta hafa aðallega verið varðveitt á pappír hefur nú verið komið á rafrænt form, það elsta frá árinu 1987. Mestallt þetta efni er nú komið hér á vefinn og er einnig birt í Rafhlöðu Þjóðarbókhlöðunnar og Rit Mógilsár birtist einnig á timarit.is. Á síðu Rits Mógilsár á skogur.is er allt þetta efni flokkað eftir ártölum. Meira efni er væntanlegt á síðuna eftir því sem færi gefst á að finna það og skanna.

Um 47. tölublað

Fagráðstefna skógræktar var haldin á Hótel Geysi Haukadal dagana 29.-30. mars 2022 undir yfir­skriftinni Skógrækt 2030 – Græn ábyrg framtíð. Fyrri daginn voru haldin stutt inngangs­erindi um þrjú umfjöllunar­efni, 1) Skógræktar­stefna til 2030, 2) Kolefnis­binding, ný markmið, tækifæri og vottun og 3) Viðar­afurðir. Að því búnu var efnt til pallborðs­umræðna. Síðari daginn voru fjölbreytt erindi um ýmis skóg­fræðileg og skóg­tæknileg efni. Í 47. tölublaði af Riti Mógilsár eru nú birtir út­drættir fyrir­lestra og vegg­spjalda frá þeim höfundum sem óskuðu birtingar. Sumir útdráttanna eru auknir frá því sem var í út­gefnu ráðstefnuriti eins og höfundum var gefinn kostur á og eru í raun stuttar fræðigreinar frekar en útdrættir.

Upp­tökur og glærur flestra fyrirlestra og veggspjalda eru á skogur.is/fagradstefna2022.

Frétt: Pétur Halldórsson