Skógar orðnir mikilvægur þáttur í efnahag, umhverfi og menningarlífi landsmanna

Kerstin Lange, blaðakona á Nýja-Englandi, skrifar grein um skógrækt á Íslandi í nýjasta tölublað tímaritsins Northern Woodlands. Hún nefnir meðal annars að á Íslandi sé fleira sauðfé nú en var í Vermont þegar fé var þar flest um 1880. Skógar Vermont-ríkis minnkuðu um 75% á fyrstu tveimur öldunum eftir að Evrópumenn settust þar að en hafa verið ræktaðir upp aftur og þekja nú um 78% lands í ríkinu.

Greinin nefnist á ensku Forestry in Iceland? Spurningarmerkið segir sína sögu enda tengja líklega fæstir útlendingar Ísland við skóga eða skógrækt og hvá gjarnan ef skógar eða skógrækt er nefnd í sömu andrá og þessi klettótta úthafseyja. Höfundur nefnir einmitt fyrstu upplifun flestra gesta af landinu þegar ekið er um úfin og gróðurvana hraun Reykjanesskagans eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli sem alls ekki sé af trjám eða skógum.

Í greininni ræðir Kerstin Lange um veðurfars- og jarðvegsaðstæður á Íslandi sem séu alls ekki óhagstæðar til skógræktar öfugt við það sem margur gæti haldið. Sé litið til sögu skógareyðingar í Vermont sé ekki erfitt að ímynda sér að Ísland hafi einu sinni verið að verulegu leyti þakið skógi. Rætt er við Úlf Óskarsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands í Hveragerði, og nefnt að fyrir ísöld hafi vaxið á Íslandi ýmsar lauf- og barrtrjátegundir sem ekki sjáist þar nú og reynsla skógræktar á Íslandi á síðustu öld hafi sýnt að hér henti einkum til skógræktar trjátegundir frá vesturströnd Norður-Ameríku enda vetrarmilt en svöl sumur.

Aðspurður um viðhorf Íslendinga til skógræktar segir Úlfur að eldrafólk kvarti stundum yfir því að skógurinn geti byrgt fyrir útsýni en annars kunni Íslendingar almennt vel að meta skjólið af skógunum í þessu vindasama landi. Sagt er frá jarðskjálftunum í Hveragerði 2008 og sýnd mynd af barrtrjám sem drepist hafa vegna hita frá nýjum sprungum eftir skjálftana.

Í lok greinarinnar skrifar Kerstin Lange að þeir skógar sem nú eru vaxnir upp á Íslandi hefðu trúlega ekki stungið í augu landnámsmannanna sem hingað komu á níundu öld þótt tegundasamsetningin sé önnur. Skógarnir hefðu hins vegar verið mikil nýlunda í augum Íslendinga fyrir 100 árum þegar skógar landsins voru að mestu horfnir. Nú séu skógar hins vegar orðnir mikilvægur þáttur í efnahagslífi, umhverfi og menningarlífi landsmanna.

Texti: Pétur Halldórsson