Ungir sprotar á fjallaþini í Vaglaskógi í júlí 2015
Ungir sprotar á fjallaþini í Vaglaskógi í júlí 2015

Fræ af kynbættu afbrigði fjallaþins væntanleg innan nokkurra ára

Ritrýnd vísindagrein eftir Brynjar Skúlason, skógfræðing og sérfræðing á Rannsókna­stöð skógræktar, Mó­gilsá, er komin út í febrúarhefti vís­inda­tímaritsins Forest Pathology. Í greininni fjallar Brynjar um til­raunir með ýmis kvæmi fjallaþins (Abies lasiocarpa) í jóla­trjáa­rækt í Danmörku og á Ís­landi. Besta kvæmið fyrir Ísland reyndist vera úr þjóðskóginum Cibola í Nýja-Mexíkó í Bandaríkjunum.

Brynjar  ver í aprílmánuði doktors­ritgerð við Kaupmannahafnarháskóla um rannsóknir sínar á fjallaþin. Hann hefur unnið að erfða­fræði­legum rannsóknum á fjallaþini undan­farin ár og samhliða að kynbót­um á fjallaþin með því augna­miði að rækta fram hentugt afbrigði fyrir íslenskar að­stæð­ur. Slíkt afbrigði gæti orðið ein helsta tegundin í jólatrjáa­rækt hérlendis. Vonast er til að ágræddar plöntur sem nú vaxa upp á Vöglum í Fnjóskadal fari að gefa fræ af slíku úrvalsefni innan fárra ára.

Grein Brynjars ber enska titilinn Damage by Nenonectria neomacrospora and Adelges piceae in provenance trials of subalpine fir (Abies lasiocarpa) in Denmark. Í inngangi segir að vax­andi áhugi sé á því í Danmörku og á Íslandi að nýta norður-amerísku trjá­teg­und­ina fjallaþin sem jólatré. Hún yrði þá viðbótartegund í Danmörku en jafnvel aðal­teg­und á Íslandi. Saman­burðar­tilraun með 26 kvæmum, með bæði grænu (var. lasiocarpa) og bláu (var. arizonica) af­brigði fjallaþins, var gróðursett á þremur stöðum í Danmörku og einum stað á Íslandi, Hallormsstað, vorið 1999. Á 15 ára tíma­bili frá gróðursetningu tilraunarinnar fóru fram ýmsar mæl­ingar og mat á aðlögun kvæmanna, jólatrjáagæðum, vaxtartakti og næmni þeirra fyrir sjúkdómum og sníkjudýrum.

Mynd: Brynjar Skúlason.">

Marktækur munur var á öllum mældum eiginleikum frá einu kvæmi til annars. Línu­legt sam­hengi var á milli breiddar­gráðu og haustfrostþols þannig að nyrstu kvæmin voru fyrst til að mynda brum og byggja upp frostþol að hausti en bláu suðlægu kvæm­in síðust. Þau suðlægu voru hins vegar fyrst til að lifna og missa frostþol að vori en munur milli kvæma var þó minni að vori en hausti. Fjallaþinskvæmin frá vestursvæði Washington-ríkis og Bresku-Kólumbíu reyndust almennt best í Danmörku. Þau voru með bestu lifunina 15 árum eftir gróðursetningu, mestan hæðarvöxt, mestu jólatrjáagæðin, voru verðmetin hæst sem jólatré og höfðu einnig góða barrheldni og gott þol gagnvart sjúk­dómum og sníkjudýrum.

Kvæmin sem voru af bláu afbrigði fjalla­þinsins sýndu einnig mikil jólatrjáagæði og mynduðu sjaldnast aukatoppa. Bláa af­brigðið reyndist þó hafa minni barrheldni en það græna og næmni þess fyrir átu­sjúkdómnum Neonectria neomacrospora gerði öll bláu suðlægu kvæmin ónothæf í Dan­mörku. Á Íslandi reyndust suðlægu bláu kvæmin af­gerandi best bæði í lifun og jólatrjáagæðum.

Kvæmið White River frá Bresku-Kólumbíu í Kanada er það kvæmi sem mælt er með fyrir Danmörku. Besta kvæmið fyrir Ísland reyndist vera úr þjóðskóginum Cibola í Nýja-Mexíkó í Bandaríkjunum. Líkleg kynbótatré voru valin úr hópi bestu kvæmanna í tilraununum í hvoru landi fyrir sig. Greinar af þessum trjám hafa verið græddar á nýja stofna til að gagnast sem frægarðatré í framtíðinni.

Ef ræktun kynbætts fjallaþins gengur vel hér á landi gæti verið komin teg­und til jólatrjáaræktunar sem myndi veita inn­fluttum nordmannsþin verð­uga samkeppni. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að Íslendingar yrðu sjálf­um sér nógir með lifandi jólatré enda fylgir innflutningi alltaf nokkur áhætta. Mikilsvert er að reyna eins og mögulegt er að hindra að skaðleg sníkjudýr og sjúkdómar berist til landsins sem gætu valdið usla í skógrækt. Ræktun hentugra afbrigða til jóla­trjáaframleiðslu er því ekki ein­göngu gagnleg til að íslenskir neytendur geti fengið falleg jólatré heldur eru almennari hags­munir skógræktar í landinu í húfi.

Texti: Pétur Halldórsson