Starfsmenntaverðlaunin 2010 voru afhent í gær. Starfsmenntaverðlaunin eru veitt þeim aðilum sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntun. Tilgangur þeirra er að styðja við nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi ásamt því að vekja athygli á málefninu. Verðlaunin eiga að vera verðlaunahöfum hvatning til áframhaldandi starfa og öðrum til fyrirmyndar á þessu sviði. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum; flokki fyrirtækja, flokki skóla og fræðsluaðila og flokki félagasamtaka og einstaklinga. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.

Námskeiðaröðin Grænni skógar fékk verðlaun í flokki skóla og fræðsluaðila. Endurmenntun LbhÍ sér um framkvæmd Grænni skóga í samstarfi við landshlutabundnu skógræktarverkefnin, Landssamtök skógareigenda, félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Björgvin Örn Eggertsson, verkefnastjóri Grænni skóga, tók á móti verðlaununum.


„Stórfelldar breytingar hafa orðið á síðustu árum á hefðbundinni landnýtingu og ræktun hérlendis. Stórfelld og víðtæk skógrækt er nýlunda og til að hún takist vel þarf þekkingu. Markmið samstarfsaðila Grænni skóga er að miðla þekkingu skógræktenda. Skógrækt er mikið meira en ræktun tiltekinna tegunda plantna. Skógrækt felur í sér breytingar á landi, landsgæðum og vistkerfum og er í flestum tilvikum endurheimt fornra landsgæða, ekki síst jarðvegs, sem er ein dýrmætasta auðlind okkar,“ sagði Eyrún Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ í ræðu sem hún flutti við afhendingu verðlaunanna. Eyrún var formaður nefndar sem valdi verðlaunahafa.

Björgvin Örn Eggertsson sagði í ávarpi sínu að nú væri að ljúka 10. starfsári Grænni skóga. Efnt hefur verið til 10 námskeiðaraða með um 270 þátttakendum á aldrinum 18-82 um allt land. Samtals eru þetta 150 námskeið og skráðar hafa verið 3.100 mætingar. „Á hverri námskeiðaröð eru sérfræðingar úr viðkomandi landshluta fyrir sig fengnir til að kenna á námskeiðunum. Bæði vegna þess að þeir hafa staðgóða þekkingu og eins til að nemendurnir kynnist þeim þar sem að leiðir þeirra eiga örugglega oft eftir að liggja saman í skógræktarstarfinu,“ sagði Björgvin Örn og gat þess að nú er verið að undirbúa þrjár námskeiðaraðir sem hefjast á næsta ári. Um er að ræða námskeið á Austur- og Norðurlandi og sameiginleg námskeiðaröð á Suður- og Vesturlandi og Vestfjörðum.

„Ekki erum margir Íslendingar sem eru fæddir og uppaldir í skógarumhverfi og þörfin fyrir fræðslu því mikilvæg og að geta kennt efnið í hverjum landshluta fyrir sig hefur skipt sköpum fyrir hve hratt og vel fræðslan hefur náð eyrum skógræktenda. Sýnilegur árangur felst í auknum áhuga, fagleg þekking hefur aukist - sem hefur leitt til betri árangurs í ræktunarstarfinu. Þátttakendur hafa á þessum námskeiðum kynnst öðrum áhugasömum skógræktendum og eru i dag uppistaðan í öflugu félagskerfi skógarbænda um allt land,“ sagði Björgvin Örn.

Reykjavíkurborg hlaut verðlaunin í flokki fyrirtækja fyrir verkefnið Íslenskuskólinn. Reykjavíkurborg hefur síðan í fyrra staðið fyrir samræmdum íslenskunámskeiðum fyrir borgarstarfsmenn. Við undirbúning skólans var gerð viðamikil rannsókn á stöðu erlendra starfsmanna hjá Reykjavíkurborg árið 2007. Starfsafl og Kaffitár hlutu verðlaunin í flokki félagasamtaka og einstaklinga fyrir verkefnin „Fræðslustjóri að láni“. Verkefnið byggist á því að Starfsafl láni út mannauðsráðgjafa, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun, til fyrirtækja í afmarkaðan tíma, fyrirtækjum að kostnaðarlausu.