Námskeið fyrir starfsfólk leik- og grunnskólans á Hólmavík

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins hélt námskeið fyrir starfsfólk leik- og grunnskólans á Hólmavík á starfsdegi þeirra föstudaginn 25. apríl. Yfirskrift starfsdagsins var Grænar áherslur í skólastarfi.

Fjallað var um gildi útináms og fjölbreyttra kennsluhátta fyrir fjölbreytta nemendur og inn í þá umræðu fléttaðar tengingar við náttúru- og nærumhverfi.

Skógarnytjar og tálgutæknin var gegnumgangandi allt námskeiðið. Unnið var með grannt greinaefni sem almennt er skilgreint sem garða- eða grisjunarúrgangur. Þátttakendur kynntust öruggu hnífbrögðunum og lærðu að tálga kúlur í hálsmen og annað skraut sem nota má í skapandi vinnu í skólastarfi. Einnig var fjallað um grunnþætti menntunar og þeir tengdir við mikilvægi þess að bæði starfsfólk og nemendur fái tækifæri til að þróa sitt starf og nám sem mest á eigin forsendum.

Eins og sést á hjálagðri mynd var farið út og allir lærðu að lesa í viðinn, klufu einn eldiviðarkubb og sumir tóku sér efni í smjörhnífa. Kveikt var upp og rætt um uppkveikju, aðstöðu og búnað við útieldun, eldiviðargerð og gæði eldiviðarins. Rætt var um uppbyggingu á aðstöðu til útináms í skógartengdu útinámi, gerð grenndarskógasamnings og samstarf við skógareigendur og fagfólk í skógrækt á svæðinu.

Fyrirhugað er að taka upp þráðinn í haust og setja upp fræðsludagskrá í fyrirhuguðum grenndarskógi skólanna í hlíðinni fyrir ofan sem er í umsjá skógræktarfélagsins á staðnum.

Mynd og texti: Ólafur Oddsson