Mikill áhugi á námskeiðinu

Síðustu helgina í mars var haldið námskeið í „grænni húsgagnagerð“ á vegum Skógræktar ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Fullbókað var á námskeiðið og fólk á biðlista eftir að komast að.

Þannig hefur það verið frá því fyrsta námskeiðið var haldið fyrir u.þ.b. 3 árum. Vinsældirnar virðast helgast af því að hér er um að ræða þjálfun í að búa til stærri nytjahluti úr skógarefni sem margir hafa aðgang að í eigin görðum og skógrækt. Þátttakendurnir eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á að gera hlutina sjálfir í stað þess að kaupa þá og reyna að tileinka sér sjálfbærni í lífstíl og neyslu.

Í fyrsta hluta námskeiðsins læra þátttakendur að nota bitáhöldin, hnífa, axir og barkarhnífa, og búa til litlar „frummyndir“ af bekkjum, kollum, dýrum eða greinahaldara og sjá þá hvernig best er að nýta efnið og setja saman með „þurrt í blautt“ aðferðinni sem er æfagömul aðferð í húsgagnagerð. Þessar æfingar sýna oft vel hversu aðferðirnar og útfærslurnar geta verið fjölbreyttar þar sem sköpunarhæfileikar og formskinjun er svo persónubundin.

Þátttakendur búa sér til tréhamar (kjullu) þar sem hausinn er úr reynivið og skaftið úr greni. Reynirinn hentar vel í hausinn þar sem hann er eðlisþungur og höggþolinn. Slíkir tréhamrar eru notaðir til að kljufa efni, s.s. í eldivið, og því nauðsynlegt áhald í viðarnytjum. Grenigrein í skaft er einn allrasterkasti viður sem finna má. Þurrar grenigreinarnar eru einnig notaðar sem fætur í bekki og kolla. 

Lögð er rík áhersla á að þátttakendur njóti vinnunnar á eigin forsendum og hraða. Þeim er aðeins kennt að nota áhöldin rétt en útfærsla verkefnisins er í höndum og huga hvers og eins. Fjallað er um umgengni við bitáhöldin, kenndar ýmsar brýningaraðferðir og leibeint um þurrkun á ferska efninu og yfirborðsmeðhöndlun eftir því hvort ætlunin er að nota húsgögnin innan dyra eða utan.

Námskeiðið hófst kl. 16 á föstudegi og lauk kl. 16 á laugardegi. Allir þátttakendur fengu heftið Lesið í skóginn - tálgað í tré“ sem gefið var út af Landbúnaðarháskólanum árið 2007 og Ólafur Oddsson leiðbeinandi skrifaði.

Á myndunum má sjá Orra Frey, starfsmann Skógræktarinnar í Skorradal, Gústaf Jarl, starfsmann Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Björgvin Eggertsson (standandi), endurmenntunarstjóra Lbhí.

Myndir og texti: Ólafur Oddsson