Hallgrímur Indriðason tekur við veggspjöldunum af Bjarna E. Guðleifssyni, náttúrufræðingi og fyrrver…
Hallgrímur Indriðason tekur við veggspjöldunum af Bjarna E. Guðleifssyni, náttúrufræðingi og fyrrverandi starfsmanni Ræktunarfélags Norðurlands. Mynd Bergsveinn Þórsson.

Tengjast skógræktarsögunni og sögu Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar

Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur kom færandi hendi í Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri á dögunum með gömul veggspjöld sem gerð voru í tilefni af áttræðisafmæli Ræktunarfélags Norðurlands.

Veggspjöldin sýna í grófum dráttum sögu Ræktunarfélagsins frá stofnun þess 1903 til ársins 1983 og sú saga er samofin sögu Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar á Krókeyri þar sem Akureyrarskrifstofa Skógræktarinnar er nú. Ræktunarfélagið reisti húsið á sínum tíma og því er við hæfi að veggspjöldin séu varðveitt þar, a.m.k. þar til annað verður ákveðið.

Á veggspjöldunum eru m.a. upplýsingar sem eru áhugafólki um skógrækt forvitni­legar, til dæmis mælingar sem sýna að trjá­teg­und­in sem óx best á árunum 1909-1936 var hlynur.

Systkinin Anna Torfadóttir og Ólafur H. Torfason unnu veggspjöldin fyrir sýningu sem haldin var í Búgarði á Akureyri í tilefni af 80 ára afmæli Ræktunarfélags Norðurlands 1983. Spjöldin eru að sjálfsögðu handunnin á pappír með skær­um, lími, ljósmyndum og listrænu handbragði þeirra systkina enda gerð fyrir tíma tölvutækni í grafískri hönnun.


Gamla-Gróðrarstöðin tengist mjög upphafi skógræktar á Íslandi enda var þar rekið plöntuuppeldi um árabil og gerðar ýmsar tilraunir og rannsóknir sem hjálpuðu til við að leggja grunn að skógræktarstarfinu í landinu. Ræktunarfélagið sinnti hvers kyns búvísindum og margvíslegum náttúru­vís­ind­um og tilraunum sem tengdust land­bún­aði og ræktun, rak um árabil rannsóknar­stofu, tilraunabú og fleira. Á vegg­spjöld­un­um kemur margt forvitnilegt fram, meðal annars um trjárækt, rannsóknir á jarðvegs­lífi og fleira og fleira.

Á meðfylgjandi mynd sést Hallgrímur Indriðason taka við veggspjöldunum með formlegum hætti úr höndum Bjarna Guð­leifssonar. Bjarni hefur sýnt sögu Rækt­unar­félags Norðurlands ræktarsemi og sjálfur var hann lengi starfsmaður félagsins og bæði starfaði í Gömlu-Gróðrar­stöðinni um hríð. Félagið seldi ríkinu eignir sínar í Gróðrarstöðinni 1963 en Akureyrarbær eignaðist húsið 1975. Ræktunarfélagið rak umfangsmikla starfsemi í áratugi og var með hana á nokkrum stöðum, síðast í Búgarði. Aðrir hafa nú tekið við hlutverki Ræktunarfélagsins og félagið hefur enga starfsemi lengur þótt það hafi aldrei verið lagt niður.

Texti: Pétur Halldórsson