Átta ára gömul tilraun á Svanshóli gefur góða raun

Þessar tvær ljósmyndir hafa borist Skógræktinni og ástæða er til að miðla þeim til skógræktarfólks. Myndirnar tók Karl S. Gunnarsson sem vann ásamt Halldóri Sverrissyni og fleirum við að gróðursetja aspir í tilraun að Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum sumarið 2005. Aspirnar voru því orðnar tæplega níu ára gamlar frá gróðursetningu þegar myndirnar voru teknar. Myndirnar sýna að ræktun hraðvaxta iðnskógar er ekki aðeins möguleg á hlýjum og úrkomusömum söndum Suðurlandsundirlendisins heldur miklu víðar, meðal annars norður við Húnaflóa. Þarna voru á sínum tíma gróðursettar fræplöntur sem urðu til við stýrðar víxlanir mill valinna asparklóna sem Haukur heitinn Ragnarsson sá um.

Hallfríður Sigurðardóttir og Ólafur Ingimundarson eru skógarbændur á Svanshóli.