Vel hægt að ráða við aukinn ferðamannafjölda, segir verkefnisstjórinn

Um fimmtíu sjálfboðaliðar störfuðu í sumar á Þórsmerkursvæðinu á vegum Þórsmörk Trail Volunteers sem er verkefni undir hatti Skógræktar ríkisins. Verkefnisstjórinn, Charles J. Goemans, (Chas) segir að meirihluti þeirra sé frá Evrópu, flestir frá Bretlandi en einnig fólk frá Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Belgíu og víðar úr álfunni. Þá komi sömuleiðis sjálfboðaliðar frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu svo hópurinn er fjölbreyttur.

Kynning á sjálfboðastarfinu

Í upplýsingasamfélagi nútímans eru ýmsar leiðir færar til að láta boðskapinn berast og freista fólks að gerast sjálfboðaliðar í Þórsmörk. Verkefnið er kynnt á vefsíðunni trailteam.is og sú síða segir Chas að sé hlekkjuð við nokkrar stórar vefsíður sem sjái um að miðla upplýsingum um sjálfboðastörf vítt og breitt um heiminn. Auglýsingar séu settar á þessa vefi í desember og hangi þar inni fram í mars. Chas segir að þetta sé næg kynning því ekki séu í boði mörg verkefni sambærileg við Þórsmerkurverkefnið sem ekkert kosti að taka þátt í. Yfirleitt þurfi fólk að greiða fyrir slík tækifæri en sjálfboðaliðar sem koma til að starfa á Þórsmerkursvæðinu þurfa greiða ekki fyrir annað en ferðalag sitt til Íslands og heim aftur.

Vanda þarf valið á sjálfboðaliðum

Chas segir að vanda þurfi til verka þegar sjálfboðaliðar eru valdir til krefjandi starfa. Hann talar af reynslu því áður starfaði hann með sjálfboðaliða hjá Umhverfisstofnun, til dæmis við endurbætur í þjóðgörðum vítt og breitt um landið. Vinnan sé erfið og ekki sé allra að búa í tjaldi vikum saman í óbyggðum, langt frá því borgarumhverfi sem flestir eru vanir. Þess vegna borgi sig margfalt að ganga úr skugga um það fyrir fram að sjálfboðaliðarnir séu líklegir til að standa undir væntingum. Fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar í Þórsmörk sækir um milliliðalaust gegnum vefsíðu Þórsmörk Trail Volunteers. Það er reyndar nokkuð óvenjulegt, segir Chas, því oftast sjái umboðsskrifstofur um slíka ráðningu. Með þessu móti sé hins vegar auðveldara að raða saman í góðan og traustan hóp enda sé reynslan góð af fyrirkomulaginu. Sjálfboðaliðar hafa nú starfað tvö sumur á Þórsmerkursvæðinu og enginn þeirra hefur gefist upp og farið heim fyrr en áætlað var, segir Chas.

Sterka einstaklinga

Aðalatriðið segir Chas vera að leita eftir fólki með rétta hugarfarið og sterkt líkamlegt og andlegt atgervi. Þá sé það vissulega kostur líka ef fólk hefur reynslu af erfiðisvinnu eða er vant útivist í óbyggðum. Auðvitað þurfi sjálfboðaliðarnir að vera hraustir bæði á sál og líkama enda dvelji þeir hér í hálfan annan mánuð, gangi mikið og vinni 6-8 tíma á dag. Chas segir að þótt enginn hafi enn sem komið er gefist upp og farið áður en dvölinni lauk, sem fyrr segir, hafi vissulega komið upp erfiðleikar hjá einstaka sjálfboðaliða en það hafi alltaf verið leyst farsællega.

Sjálfboðaliðarnir fylla út skráningarblað á vefsíðu Þórsmörk Trail Volunteers og þau sem Chas líst best á tekur hann viðtal við gegnum samskiptaforritið Skype. Ef það gengur vel er viðkomandi boðin vist á tilteknu tímabili sumarsins og ef það hentar sjálfboðaliðanum getur hann farið að skipuleggja ferð sína til landsins. Chas segir um það bil tvo mánuði fara í viðtölin og úrvinnslu þeirra enda taki hvert viðtal um hálftíma og til að ná saman fimmtíu manna hópi þurfi að ná viðtali við um það bil 70 manns. Alltaf hætti einhverjir við að koma, fái aðra vinnu eða önnur tækifæri, forfallist eða annað. Enginn sé skuldbundinn til að koma þótt samkomulag hafi náðst, ekkert staðfestingargjald bindi fólk. Ráðningarvinnunni lýkur um páskaleytið. Þá er ljóst hvernig hóparnir verða sem starfa á komandi sumri og hægt að hefja skipulagningu sumarsins.

Sækist eftir reynslu og ævintýrum

Hinn dæmigerði sjálfboðaliði í Þórsmörk er 23-25 ára gamall háskólanemi sem hefur lokið grunnnámi og er að íhuga framhaldið, vill ná sér í nýja reynslu, upplifa ævintýri eða láta gott af sér leiða áður en áfram er haldið í námi. Gjarnan eru þetta nemar í náttúru- eða umhverfisvísindum af einhverjum toga, segir Chas, en sjálfboðaliðarnir hafi samt sem áður mjög fjölbreytilegan bakgrunn og reynslu. Hann segist sjá nokkrar meginmanngerðir sem sæki um. Í fyrsta lagi sé fólk sem stefni að því að starfa úti í náttúrunni í framtíðinni, við landvörslu, í þjóðgörðum, á náttúruverndarsvæðum og þess háttar. Með því að vinna sjálfboðastörf í Þórsmörk næli það sér í dýrmæta reynslu sem hjálpi til þegar sótt er um vinnu í heimalandinu. Í öðru lagi sé fólk sem einkum sé á höttunum eftir einhvers konar sumarævintýri. Í þriðja lagi sé talsvert um nokkru eldra fólk, oft komið yfir þrítugt, sem vilji breyta til, taka nýja stefnu á starfsferli sínum, skipta um vinnu eða fag, gera eitthvað nýtt, hasla sér völl á sviði náttúrufræða eða náttúruverndar, fara út í rannsóknir og svo framvegis.

Bætt aðstaða

Mikið rigndi á liðnu sumri og segir Chas að það hafi vissulega ekki auðveldað vinnuna en samt ekki sett verulegt strik í reikninginn. Ef einhver kvefast eða veikist er reynt að búa betur að viðkomandi, koma honum í skálagistingu og hlúa að honum þar til honum batnar. Sífellt sé líka hugað að því hvernig bæta megi aðstöðuna fyrir sjálfboðaliðana. Í sumar var bætt við aðstöðu til að þurrka föt og annan búnað sem hefur mikið að segja í svo langri tjaldvist, ekki síst á votviðrasömu sumri. Síðsumars var líka sett upp skýli þar sem hægt er að elda og þvo upp í skjóli fyrir vindi og regni.

Helstu verkefnin í sumar

Um tuttugu sjálfboðaliðar eru að störfum hverju sinni og að jafnaði er þeim skipt niður í þrjá hópa sem vinna á hver á sínum stað. Chas er verkstjórinn, fer á milli, lítur eftir verkunum og gefur fyrirmæli. Í sumar var mikið unnið að endurbótum þar sem gönguleiðin um Fimmvörðuháls milli Þórsmerkur og Skóga liggur um Kattarhryggi. Þar hefur fólk stuðst við reipi til að komast um snarbratta kafla en í fyrrasumar var byrjað að smíða tröppur til að gera leiðina greiðfærari og öruggari. Því verki var haldið áfram í sumar og þótt mikið hafi áunnist er verkinu ekki lokið enn. Að venju var líka unnið mikið við stíga í Langadal og Húsadal þar sem umferðin er hvað mest og Chas nefnir sömuleiðis Slyppugil og Tindfjallahringinn þar sem hóparnir tóku einnig til hendinni.


Eitt aðalverkefni sumarsins var líka að koma upp sérstökum vinnubúðum um tíu kílómetrum norðan við aðalbækistöðvarnar í Þórsmörk svo vinna mætti markvisst að úrbótum á gönguleiðinni um „Laugaveginn“ svokallaða. Þar var lögð áhersla á lagfæringar þar sem þykk jarðvegslög lágu undir skemmdum, að byggja upp jarðveg og koma gróðurþekju í eðlilegt horf. Til að hindra frekara vatnsrof var komið fyrir ræsum og land grætt upp umhverfis stíginn. Að þessu unnu sjálfboðaliðarnir  í júlí- og ágústmánuði, bjuggu í tjöldum við vinnusvæðið á meðan og þurftu að ganga mikið. Notast var við aðstöðuna í Langadal sem grunnbúðir og farið þaðan með mat og aðrar vistir annan hvern dag eða svo. Þessar endurbætur á Laugaveginum eru rétt að byrja en byrjunin lofar góðu. Þetta sérstaka verkefni naut styrks frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum eins og við höfum áður greint frá hér á skogur.is.

   

Fram undan

Næsta sumar segir Chas að haldið verði áfram að reyna að bæta aðbúnað sjálfboðaliðanna, ekki síst þeirra sem vinna á Laugaveginum. Þar þurfi hóparnir smám saman að teygja sig enn lengra frá aðalbækistöðvunum og þá verði að huga enn betur að því hvernig aðbúnaðarmálin verða leyst. Þeir stígar sem mest séu notaðir líti nú vel út en starfið næstu árin fari mikið eftir því hvernig ferðamennskan þróast í Þórsmörk og hvar mesta umferðin verður. Til dæmis sé ekki alveg ljóst hvaða áhrif væntanleg göngubrú yfir Markarfljót hefur en nú sé tækifæri til að búa sig undir þann aukna straum göngufólks sem búast má við að fylgi brúnni.

Góð reynsla eftir tveggja sumra starf

Nú hafa sjálfboðaliðar starfað tvö sumur á Þórsmerkursvæðinu undir merkjum Þórsmörk Trail Volunteers og reynslan er mjög góð, segir Chas Goemans. Um fimmtíu sjálfboðaliðar störfuðu í sumar og vinnu þeirra má reikna samanlagt til um 250 vinnuvikna ef 40 vinnustundir eru reiknaðar á viku. Þetta samsvarar 5-6 ársverkum og í fjármunum má reikna verðmæti þessarar vinnu til ríflega 18 milljóna króna. Á móti kemur kostnaður við uppihald sjálfboðaliðanna en það er ekki nema brot af því mikilvæga framlagi sem sjálfboðaliðarnir leggja til verndunar Þórsmerkursvæðisins og bættrar aðstöðu þar fyrir ferðafólk.

Eilífðarverkefni

Chas Goemans segir að starfinu á Þórsmerkursvæðinu verði aldrei lokið. Þegar endurbætur hafi verið gerðar á einum stað taki við verkefni á öðrum stað og sífellt þurfi líka að halda því við sem áður hafi verið gert.  Ekkert útlit sé því fyrir að þörfin minnki fyrir starfskrafta sjálfboðaliðanna í Þórsmörk jafnvel þótt smám saman dragi úr nýframkvæmdum því um leið aukist viðhaldsvinnan. Hann vill ekki blanda sér mikið í umræðuna um áhrif vaxandi ferðamannastraums á Íslandi en en segir starfið í Þórsmörk undanfarin tvö sumur skýrt dæmi um hversu miklum árangri megi ná á stuttum tíma.

Öll þau vandamál sem komið hafi upp á ferðamannastöðum hérlendis telur Chas að hægt sé að leysa. Það eina sem þurfi til sé tími og peningar. Á Þórsmerkursvæðinu sé markmiðið að haga lagfæringum þannig að þær falli sem best inn að náttúrunni og sem minnst sjáist að mannshöndin hafi komið nærri. Eini „ókosturinn“ við það sé að þá sé erfiðara að sýna hversu stór afrekin eru, til dæmis þeim sem veita fé til verkefna af þessu tagi. Reyndar hafi gengið mjög vel að afla stuðnings við verkefnin á Þórsmerkursvæðinu, sérstaklega í sumar sem leið, og það verði vonandi áfram. Chas segir sérstaklega ánægjulegt hversu mikinn áhuga ferðafélögin og ferðaþjónustufyrirtækin hafi á þessu starfi. Til dæmis hafi rútufyrirtækin gefið nær alla farmiða sem þurfti í sumar fyrir sjálfboðaliðana.

Sjálfur segist Chas hafa þráð komast aftur út í náttúruna eftir tíu ára starf á Umhverfisstofnun sem að miklu leyti var skrifstofuvinna. Tækifærið að fá að vinna útivinnu í Þórsmörk hafi því verið kærkomið. Hann segir líka spennandi að glíma við nýjar lausnir á vandamálum og viðfangsefnum. Verið sé að reyna ýmsar nýjar aðferðir á Þórsmerkursvæðinu sem hafi gefið góða raun. Þar komi sér vel reynsla og þekking Skógræktar ríkisins á svæðinu við sáningar og áburðargjöf til dæmis.

Vekur athygli utanlands

Að lokum er gaman að segja frá því að þessa dagana er Chas Goemans á förum til Taívans þar sem honum hefur verið boðið að kynna starfið í Þórsmörk fyrir fulltrúum sjálfboðaliðasamtaka þar í landi. Þetta er til marks um hversu víða hróðurinn berst. Taívanarnir vilja m.a. fá að vita hvernig staðið er að uppsetningu grunnbúða fyrir sjálfboðaliða en einnig hvaða aðferðir notaðar eru við viðgerðir og viðhald á stígum. Við bíðum spennt eftir nánari fregnum af þessari kynningu í Taívan.

Viðtal: Pétur Halldórsson
Myndir: Þórsmörk Trail Volunteers