Fundirnir með skógarbændum voru vel sóttir í öllum landshlutum. Hér sést hópurinn sem kom saman í sk…
Fundirnir með skógarbændum voru vel sóttir í öllum landshlutum. Hér sést hópurinn sem kom saman í skóginum á Núpum í Ölfusi. Ljósmynd: Björn B. Jónsson

Samráðsfundir bænda með fulltrúum Skógræktarinnar fóru nýverið fram með skógargöngu í skógum bænda í öllum landshlutum. Fulltrúar Skógræktarinnar voru til skrafs og ráðagerða með óformlegum hætti og sköpuðust frjóar og gagnlegar umræður.

Hér verður greint stuttlega frá öllum fundunum og með fylgja líka myndir sem segja meira en mörg orð.

Suðurland

Árleg Jónsmessuganga Félags skógareigenda á Suðurlandi var sunnudaginn 21. júní og nú var gengið um skóginn að Núpum í Ölfusi, skammt sunnan við Hveragerði. Guðmundur A. Birgisson skógarbóndi fór fyrir nærri 60 manna hópi um skóginn og sagði frá þessum einstaka útivistar- og nytjaskógi. Þar er að finna allar helstu trjátegundir ásamt miklu úrvali af eðaltrjám.

Skógrækt að Núpum hófst 1985, en stór hluti nytjaskógarins var gróðursettur árið 2000 og næstu ár þar á eftir. Vöxtur skógarins er með eindæmum góður en athygli vöktu eðaltré sem er að finna vítt og breitt um skóginn. Þar á meðal er hlynur sem vex vel og er án allra óþrifa. Unnið er að því að rækta hlyn í nokkrum hekturum lands og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri ræktun á næstu árum.

Rennisléttir göngustígar og vegslóðar eru um allan skóg sem er vel við haldið, m.a. með reglulegum slætti. Vandfundnir eru skógar með betra og snyrtilegra aðgengi en að Núpum og ræktendum til mikils sóma. Um skóginn liggur gamla leiðin til Reykjavíkur, sem var farin áður en lagður var vegur um Kambana.

Skógræktarstjóri var með í göngunni ásamt fleiri stjórnendum Skógræktarinnar. Björn Bjarndal Jónsson, formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi, segir að þetta hafi gefið göngunni faglegt yfirbragð enda hafi göngufólk getað spurt spurninga um allt er viðkemur skógrækt og fengið greið svör. Eftir gönguna tók Unnur húsfreyja á móti hópnum í gróðurhúsinu á Núpum og veitti vel af mat og drykk. Grillað var í garðinum, lagið tekið við undirleik Ísólfs Gylfa Pálmasonar og ketilkaffi drukkið áður en haldið var heim á leið.

Vesturland 23. júní: Ferstikla Hvalfirði

Fastur liður hjá Félagi skógarbænda á Vesturlandi er að fara í skógargöngu hjá einum félaga á afmælisdegi félagsins 23. júní, segir Bergþóra Jónsdóttir formaður. Þetta árið voru heimsótt hjónin Guðmundur Rúnar Vífilsson og Margrét Stefánsdóttir að Ferstiklu í Hvalfirði. Þau hafa nú tekið við skóginum af foreldrum Rúnars, Vífli Búasyni og Dúfu Stefánsdóttur, sem hófu skógræktina fyrir rúmum 30 árum.

Á Ferstiklu er að vaxa upp fallegur skógur á 120 hekturum. Áberandi þótti hversu fallegur skógurinn væri eftir erfiðan vetur og miðað við þá óværu sem víða herjar á skóga landsins. Eftir gönguna var drukkið ketilkaffi og birkivín í skógarrjóðri.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri færðu gestgjöfunum boli með áletruninni „Minna kjaftæði meiri skóg“ og skógarbændum á Vesturlandi reyni- og grenifræ til að sá í útjörð. Þá færði félagið Ellerti Arnari Maríssyni bók að gjöf í tilefni af meistaraprófi hans í skógfræði og sem þakklætisvott fyrir að taka fyrir verðugt verkefni, viðarmagnsspá fyrir Vesturland, sem á eftir að gagnast skógarbændum vel í framtíðinni.

Að lokum fór allur hópurinn og borðaði súpu á Hernámssetrinu að Hlöðum þar sem Guðjón Sigmundsson, Gaui litli, fræddi fólk um safnið og hernámsárin.

Norðurland 24. júní: Hof Vatnsdal

Blásið var til skógargöngu 24. júní að Hofi í Vatnsdal í samstarfi Skógræktarinnar og Félags skógarbænda á Norðurlandi. Ábúendurnir að Hofi, Eline Manon Schrijver og Jón Gíslason, tóku á móti gestum. Vatnsdalurinn tók vel á móti göngufólki, enda óvíða fegurra, og þrátt fyrir rigningu í upphafi göngu var leikur einn að njóta þess að ganga um í fallegum skógi, segir Laufey Leifsdóttir sem situr í stjórn Félags skógarbænda á Norðurlandi.

Að Hofi er afskaplega fallegur og fjölbreyttur skógur og nóg að skoða. Fyrst var plantað þar upp úr 1930 en skógurinn er alls um 40 hektarar að stærð. Jón og Eline leiðsögðu gestum um skóginn, bæði eldri og yngri hluta. Í þeim eldri má meðal annars sjá töluvert af blæösp sem virðist kunna ákaflega vel við sig og ýmsar trjátegundir sem fyrri ábúendur settu niður af mikilli forsjálni fyrir um 90 árum. Gestir fengu einnig að kynna sér hentugan tækjakost sem Jón og Eline hafa komið sér upp til að nytja skóginn.

Að lokinni göngu var farið inn í sal gistiheimilisins að Hofi og drukkið kaffi. Þar fóru skógræktarstjóri, Þröstur Eysteinsson, og sviðstjóri skógarþjónustu, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, yfir það helsta sem er í gangi hjá Skógræktinni þessa dagana, bæði dag frá degi og áætlanir til lengri tíma. Var það mjög gagnleg samræða fyrir skógarbændur.
Ábúendum á Hofi eru færðar miklar þakkir fyrir afbragðs móttökur og gestum fyrir góða mætingu.

Vestfirðir 26. júní: Svanshóll Bjarnarfirði

Vel heppnaður fundur var líka með Félagi skógarbænda á Vestfjörðum. Hann fór fram 26. júní að Svanshóli Bjarnarfirði. Skógarbændurnir þar, Hallfríður Sigurðardóttir og Ólafur Ingimundarson,  Halla og Lói, tóku á móti gestunum. Fyrir hönd Skógræktarinnar voru á fundinum Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu, og skógræktarráðgjafarnir Arnlín Óladóttir og Ellert Arnar Marísson. Ellert Arnar tekur senn við verkefnum Arnlínar vestra þegar hún lætur af störfum eftir farsælt starf.

Samkoman á Svanshóli hófst á því að farið var í skógargöngu. Skógurinn á Svanshóli er mjög fjölbreyttur og hafa þau Halla og Lói ræktað þar alls ríflega 20 trjátegundir auk helstu nytjatrjátegundanna fimm. Gestum þótti mjög gaman að skoða þennan fallega skóg sem ræktaður er af miklum metnaði.

Þá var einnig litið inn í litla gróðrarstöð sem þau hjónin reka á Svanshóli. Þar rækta þau meðal annars ilmreyni og ösp með samningi við Skógræktina en eru einnig með ýmsa ávexti, kirsuber og fleira sem stóð í miklum blóma í stöðinni.

Að göngu lokinni var haldinn aðalfundur félagsins vestra. Þetta var býsna langur fundur með miklum umræðum um ýmis mál sem snerta skógrækt. Umræður einkenndust af jákvæðni og áhuga og m.a. velti fólk fyrir sér þeim möguleika að koma upp þjóðskógum á Vestfjarðakjálkanum í umsjón Skógræktarinnar.  Sigríður Júlía gat upplýst fundarfólk um að þetta væri einmitt til athugunar og þjóðskógar gætu jafnvel orðið á fleiri en einum stað. Í sóknaráætlun fyrir Vestfirði er meðal markmiða að stofna til þjóðskóga á svæðinu og hefur Skógræktin tekið þátt í hugarflugsfundum um málið. Of snemmt er þó að greina frá því hvar slíkir skógar gætu orðið enda ekkert verið ákveðið enn.

Á fundinum á Svanshóli var boðið upp á dýrindis grænmetissúpu með salati og meira meðlæti sem Arnlín Óladóttir átti heiðurinn að. Á eftir var stóreflis terta í boði. Hátt í þrjátíu manns sóttu fundinn og allir fóru glaðir heim. 

Austurland 30. júní: Mýrar Skriðdal

Blíðuveður lék við göngufólk frá Félagi skógarbænda á Austurlandi og Skógræktinni þegar farið var í göngu um skógræktina á Mýrum í Skriðdal 30. júní, að sögn Maríönnu Jóhannsdóttur, formanns félagsins. Eftir gönguna var haldinn samráðsfundur Skógræktarinnar við skógarbændur á félagssvæðinu og fundarmenn gæddu sér á veitingum.

Hist var í Stefánslundi sem er minningarlundur um Stefán Þórarinsson, bónda á Mýrum. Byrjað var að gróðursetja greni í lundinn árið 1971 og síðar einnig lerki. Páll Guttormsson stjórnaði verkinu en hvatamaður að skóginum var Zophonías Stefánsson. Síðan var gengið um hluta skógræktarinnar sem er frá árunum 1996 -2000. Þar er mestmegnis lerki- og furuskógur en einnig þó nokkuð af ösp sem vex vel upp úr bláberjalyngsmóa. Jónína Zophoníasdóttir, Jón Júlíusson og Einar Zophoníasson, bændur á Mýrum, tóku höfðinglega á móti hópnum sem alls var í um 50 manns.

Þröstur skógræktarstjóri og Sigríður Júlía, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, héldu stuttar tölur og svöruðu fyrirspurnum. Umræður voru aðallega um girðingamál sem brenna á skógarbændum ekki síður en skortur á lerkifræi sem gæti orðið viðvarandi næsta áratuginn. Það er ekki góð staða fyrir skógarbændur á þessu svæði. Þá voru grisjunarmál rædd en hundruð hektara bíða grisjunar og millibilsjöfnunar á Austurlandi. Fjármagn hefur hins vegar ekki fengist til þeirra verka eins og þörf er á. Fram kom á fundinum að skógarbændur á Austurlandi hafa ítrekað ósk sína um flutning skógræktar á lögbýlum frá umhverfisráðuneytinu í landbúnaðarráðuneytið. Félagið vill færa Jónínu, Jóni og Einari kærar þakkir fyrir móttökurnar á Mýrum.

#skógræktin #skógarbændur #skógræktálögbýlum #nytjaskógrækt

Texti: Pétur Halldórsson