Bændablaðið heimsækir Brekkugerði í Fljótsdal

Skógræktarjörðin Brekkugerði Fljótsdal er til umfjöllunar í nýju tölublaði Bændablaðsins. Í samtali við blaðið segja hjónin og bændurnir í Brekkugerði, Jóhann F. Þórhallsson og Sigrún Erla Ólafsdóttir, að hefðbundinn vinnudagur á vetrum felist í gjöfum kvölds og morgna, grisjun skógar um miðjan dag og svo sé farið á hestbak.

Í landi Brekkugerðis hafa hundrað hektarar lands verið skipulagðir til skógræktar en auk skógræktarinnar er aðalbúgrein þeirra Jóhanns og Sigrúnar sauðfjárbúskapur. Þau eru með um 300 ær og fimmtán gangnahross. Auk vinnu heima á búinu starfar Sigrún hjá Fjarðaáli á Reyðarfirði.

Aðspurð um framtíð búskaparins eru þau ekki allt of bjartsýn, haldi afkoman áfram að versna. Sú þróun hafi ekki síst verið í skógræktinni. Íslenskur landbúnaður geti þó átt bjarta framtíð fyrir sér ef staðinn verði vörður um hreinleika matvælaframleiðslunnar í landinu og kolefnisfótspor greinarinnar.

Eftirminnilegasta atvikið úr búskapnum er að sögn hjónanna í Brekkugerði þegar fyrstu jólatrén voru seld. Skógræktin óskar bændunum í Brekkugerði góðs gengis.

Texti: Pétur Halldórsson