Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, með skilti Skógræktar ríkisins í baksýn þar sem sten…
Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, með skilti Skógræktar ríkisins í baksýn þar sem stendur Hvammur

Skógarvörðurinn á Vesturlandi í viðtali á ÍNN

Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, var í viðtali hjá Haraldi Bjarnasyni í þættinum Vafrað um Vesturland á sjónvarpsstöðinni ÍNN 6. janúar. Þar sagðist hann meðal annars geta útvegað borðvið í stærðum sem ekki fást í byggingavöruverslunum. Stundum er þörf á slíkum stærðum, til dæmis þegar unnið er að því að gera upp gömul hús.

Í þættinum ræða þeir Haraldur og Valdimar um nýafstaðna jólatrjáavertíð í skógunum og við sjáum myndir af fallegum trjám sem voru felld í skógunum á Vesturlandi og stóðu við götur og torg um jólin. Ræktun jólatrjáa ber á góma og segist Valdimar vonast til að hún aukist á komandi árum, meðal annars með akurræktun á stafafuru og fleiri tegundum. Hann bindur líka miklar vonir við fjallaþininn sem ilmar svo vel og lengi og heldur barrinu öll jólin.

Þá er rætt um vaxandi störf við grisjun, Valdimar fræðir áhorfendur um hvernig þau tré eru valin sem felld eru við grisjunina og við sjáum gott dæmi um tré sem orðið hefur fyrir áföllum og á því ekki möguleika á að verða að góðu viðartré. Minnst er á þann hvata sem samningur Skógræktarinnar við ELKEM er grisjunarstarfinu en Valdimar nefnir líka nokkur dæmi um hvernig farið er að nýta viðinn til húsagerðar og annarra mannvirkja.

Horfa á þáttinn.