Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, var einn fjölmargra sem heimsóttu bás Skóg…
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, var einn fjölmargra sem heimsóttu bás Skógræktarinnar á landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll. Þar mátti fræðast um skógrækt á lögbýlum, kolefnisbindingu í skógi og margt, margt fleira. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Fjölmargir stöldruðu við í bás Skógræktarinnar á Landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll sem hófst á föstudag og lauk í gær, sunnudag. Greinilegt er að áhugi á skógrækt er vaxandi. Mikið var spurt um skógrækt á lögbýlum og þá möguleika sem í henni felast.

Að sögn forsvarsmanna sýningarinnar sóttu hana um 100.000 gestir sem mun vera metaðsókn að slíkum sýningum hérlendis. Bás Skógræktarinnar var í einu horni frjálsíþróttabyggingarinnar í Laugardal og blasti við þegar gengið var eftir annarri langhlið salarins. Heil stafafura, á fimmta metra á hæð, stóð í básnum og vakti talsverða athygli. Fuglasöngur kvað við úr litlum hátalara sem komið var fyrir í trénu og þegar ilmurinn af furunni bættist við var komin ósvikin skógarstemmning í básinn sem annars var skreyttur í litum Skógræktarinnar með fróðleik um skógrækt og kolefnisbindingu. Á skjá mátti njóta margs konar fróðleiks um skóga og skógrækt.

Áherslur Skógræktarinnar á sýningunni voru einmitt skógrækt á lögbýlum og kolefnisbinding. Augljóst er að eftir að stjórnvöld kynntu á dögunum aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum og aukin framlög til bindingar með skógrækt og landgræðslu gætir aukins áhuga hvarvetna í samfélaginu á skógrækt. Þetta var auðfundið á þeim gestum sem stöldruðu við hjá starfsfólki Skógræktarinnar í sýningarbásnum. Dreift var upplýsingablaði um skógrækt á lögbýlum og aftan á því var umsóknareyðublað fyrir eigendur lögbýla sem vilja gera skógræktarsamning. Gestir spurðu mikið um þessa möguleika og ekki er ólíklegt að sýningin skili sér í nýjum samningum um skógrækt á lögbýlum.

Skógræktarráðgjafar og sérfræðingar á rannsóknasviði Skógræktarinnar tóku á móti gestum í básnum, svöruðu fyrirspurnum og veittu fróðleik og ráðgjöf. Áberandi var hversu margir ungir bændur sýndu áhuga á að hefja skógrækt og tóku með sér upplýsingar og eyðublað. Þá vöktu upplýsingar um mismikla kolefnisbindingu ólíkra trjátegunda mikla athygli og virtust margir ekki hafa áttað sig á henni.

Þátttaka Skógræktarinnar í sýningunni Íslenskum landbúnaði 2018 hefur vafalaust borgað sig margfalt og skilað sér í auknum tengslum við fólk um land allt sem stundar búskap eða lifir og hrærist með einhverjum hætti í búnaðarmálum.

Á meðfylgjandi myndum má sjá stemmninguna í bás Skógræktarinnar á sýningunni.

Texti: Pétur Halldórsson