Fimmtudaginn 10. maí kl 15:00 verður opinn gestafyrirlestur í fyrirlestrasalnum á 3. hæð í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands (gamla Rala), 112 Keldnaholti, Reykjavík. Fyrirlesturinn nefnist: "Dead Wood and Warm Peat: Biotic controls of terrestrial biogeochemical processes". Flytjandinn er Ástralinn James T. Weedon, sem staddur er hér á landi núna við rannsóknir á áhrifum hækkandi jarðvegshita á jarðvegsörverur í alþjóðlega rannsóknaverkefninu ForHot (www.forhot.is) á Reykjum í Ölfusi. Hann er doktorsnemi við Vrije University Amsterdam í Hollandi.

Rannskóknasvið James eru áhrif hækkandi hitastigs á jarðvegsvirkni (örverur og niðurbrot lífræns efnis). Mest af rannsóknum hans hafa farið fram í birkiskógum og í mýrum Abisko í N-Svíþjóð, þar sem hitastigi í jarðvegi hefur verið beytt í tilraunaskyni. Rannsóknaspurningar James eru mikilvægar, því að það er lykilatriði fyrir loftslag framtíðarinnar hvernig jarðvegsörverur á norðurslóðum munu svara hlýnandi loftslagi; en á norðurslóðum er geymt gríðarlegt magn af CO2, bundið í órotnað lífrænt efni í freðmýrum og mómýrum. Ef loftslagsbreytingar hafa áhrif á þennan forða þá geta gróðurhúsaáhrifin stigmagnast hratt! Dálítið sem Greenpeace vakti einna fyrst athygli á fyrir um 30 árum; og nefndu the "Carbon bomb". James notar nýjustu rannsóknaðferðir í jarðvegsvistfræði, sem tengja saman samsetningu (DNA-greiningar) og virkni jarðvegsörvera, til  að öðlast betri skilning á því hvað gerist.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku.