Blágreni í Haukadalsskógi
Blágreni í Haukadalsskógi

Þetta segir skógarbóndi í Eyjafjarðarsveit

Jólatré hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni undanfarna daga eins og gjarnan er síðustu vikurnar fyrir jól. Skógarbóndi í Eyjafirði segir í útvarpsviðtali að gervijólatré séu bara að þykjast vera jólatré en sjálfur prófar hann sig áfram með ýmsar tegundir í jólatrjáaræktinni. Þá hefur líka heyrst í skógarverðinum á Suðurlandi um svipuð efni í útvarpinu.

Helgi Þórsson, skógarbóndi í Kristnesi í Eyjafirði, hefur ræktað margar tegundir trjáa og selt sum þeirra á markaði á Akureyri. Hann segir að til þess að ná góðri nýtingu í ræktun jólatrjáa þurfi að hugsa um þau í uppvextinum og t.d. klippa þau til. Íslensk jólatré geti verið miklu fallegri en innflutti nordmannsþinurinn og ilmað betur. Rætt var við Helga í Samfélaginu á Rás 1 í morgun.


Í síðustu viku var líka talað um jólatrjáamálefni við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi. Það var í Mannlega þættinum á Rás 1. Hjá honum kemur fram að nóg sé til af stórum torgtrjám á Íslandi og flest torgtré sem prýða íslenska þéttbýlisstaði fyrir jólin séu íslensk. Hreinn segir líka að með smáskipulagi gætu Íslendingar sjálfir ræktað öll stofutré sem markaðurinn innan lands þarf. Viðtalið hefst þegar 8.20 mínútur eru liðnar af þættinum.

Meðfylgjandi mynd er af fallegu blágrenitré í Haukadalsskógi.