Frétt Morgunblaðsins 8. mars sl.

NOKKRIR tugir arfbera koma við sögu þegar trén telja tíma til kominn að búa sig undir veturinn og fella laufið. Hefur það komið í ljós við rannsóknir sænskra vísindamanna.
Vísindamennirnir, sem starfa við háskólann í Umeå og við Konunglegu tæknistofnunina í Stokkhólmi, notuðu innlenda aspartegund við rannsóknirnar og komust þá að því, að það eru 35 gen, sem láta mest að sér kveða þegar laufið skrýðist haustlitunum og byrjar að falla. Er þetta ferli lífsnauðsynlegt fyrir trén því að það felst í því að heimta úr laufinu eins mikið af næringarefnum og unnt er áður en vetur gengur í garð. Sagði frá þessu á fréttavef BBC.

Vísindamenn telja, að trén séu búin innra kerfi eða klukku, sem ræður þessari starfsemi og hallast helst að því, að sólargangurinn hafi mest að segja.

Stefan Jansson prófessor segir, að með frekari rannsóknum á genunum ætti að vera unnt að finna þau tré, sem eiga best við á ákveðnum svæðum og í framtíðinni ætti að vera unnt að beita erfðatækni til að laga sumar tegundir að nýjum breiddargráðum. Þá er átt við, að genaklukka þeirra sé þannig stillt, að þau fari að búa sig undir veturinn á réttum tíma en hvorki of snemma né of seint. Það sé hins vegar oft tilfellið þegar verið er að rækta tré á annarri breiddargráðu en þau eru stillt fyrir.