Ummál stofnsins 2,02 metrar

Borgartréð 2014 er garðahlynur við Sturluhallir, Laufásvegi 49-51, þar sem Íslenska auglýsingastofan er til húsa. Tréð verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn í dag, föstudaginn 21.nóvember. Útnefningin er samstarfsverkefni Reykjavíkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur

Hlynurinn við Sturluhallir var gróðursettur árið 1922 og er 10,2 m. á hæð og 2,02 í ummál þar sem bolurinn er sverastur. Þetta er einhver krónmesti hlynur á landinu. Króna garðahlynsins er yfirleitt regnhlífarlöguð hér á landi.

Hlynurinn hefur mikið gildi í ræktun í görðum og opnum svæðum. Viður hans er ljós og meðal annars notaður í parket, húsgögn og hljóðfærasmíði, til dæmis fiðlur, enda leiðir hann hljóð óvenjuvel. Síróp er gert úr vökva hlynsins og er það töluverður iðnaður í Norður-Ameríku.

Börkurinn er grár og sléttur á ungum trjám en verður hrufóttur með árunum og þykir mikið augnayndi. Blöðin eru handsepótt og frekar stór, haustlitur gulur. Blóm  garðahlyns eru gulgræn í hangandi klösum, vinsæl meðal býflugna. Aldinið er tvær hnotur með samvöxnum vængjum sem minna á þyrluspaða þegar þær svífa til jarðar,í miklum vindi geta fræin ferðast nokkur hundruð metra frá móðurtrénu. Tegundin þolir mengun, salt og vind ágætlega þegar tréð eldist en hlynurinn er viðkvæmur í uppeldi.

Hvergi á landinu er garðahlynurinn jafnalgengur og í Reykjavík og verður hann meira áberandi í borgarlandslaginu með hverju árinu sem líður. Flestir stórir hlynir borgarinnar eru rétt að slíta barnsskónum ef miðað er við þann 500 ára aldur sem hann getur náð (Rit Skógræktarfélagsins).

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, útnefnir tréð og tendrar ljósin á trénu. Valgeir Guðjónsson flytur lag sitt Tré. Þá segir Dr. Sturla Friðriksson, eigandi trésins, einnig nokkur orð við þetta tilefni, en Sturla ólst upp á Laufásvegi 49 og lék sér mikið í garðinum þar sem tréð stendur.

Opin dagskráin hefst kl.17 í garði Laufásvegar 49-51.

Fréttatilkynning frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur