Staurarnir voru reknir um 60 cm niður í jarðveginn.
Staurarnir voru reknir um 60 cm niður í jarðveginn.

Stauraframleiðsla getur aukið verðmæti grisjunarefnis

Í tilraun sem sett hefur verið út á Höfða á Fljótsdalshéraði á að bera saman gæði og styrkleika girðingarstaura úr íslenskum viði  og innfluttra staura. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða innlenda hráefni hentar best til stauragerðar. Stauraframleiðsla er eitt af því sem aukið getur verðmæti grisjunarviðar.

Á síðustu árum hefur millibilsjöfnun og grisjun aukist töluvert í íslenskum ungskógum og við það fellur til efniviður sem oftast er skilinn eftir í skógi en hefur einnig verið nýttur til kurlunar eða brennslu. Til að auka verðmæti þessa viðar væri æskilegt að finna fleiri nýtingarmöguleika.

Á síðustu áratugum hefur nokkuð verið framleitt af girðingarstaurum úr íslenskum viði en ekki hafa verið gerðar rannsóknir á gæðum þeirra samanborið við innflutta staura. Verkefnið sem hér er lýst er tilraun til þess að kanna hvort staurar úr íslenskum efniviði standast samanburð við innflutta staura og hvaða innlenda hráefni er best til stauragerðar.

Efniviður og aðferðir

Tilraunin var sett í tvær landgerðir, úthaga og mýri. Bornir voru saman girðingarstaurar úr eftirfarandi hráefni:

  1. Lerki, efni úr millibilsjöfnun 40-60 mm, ófúavarið
  2. Lerki, efni úr grisjun 70-100 mm, ófúavarið
  3. Stafafura, efni úr grisjun 70-100 mm, ófúavarið (verður sett niður 2016)
  4. Greni, efni úr grisjun 70-100 mm, ófúavarið
  5. Innfluttir staurar 70 mm, þrýstifúavarðir
  6. Innfluttir staurar 50 mm, þrýstifúavarðirTilraunin var lögð út á Höfða á Fljótsdalshéraði. Innlendu staurarnir eru afbarkaðir og yddaðir en þeir innfluttu fræstir og yddaðir. Af þeim sökum eru innfluttu staurarnir jafnsverir í báðum endum en innlendu staurarnir eru sverari í þeim enda sem rekinn er niður í jörðina. Lengd stauranna er 1,8 m nema 50 mm þrýstifúavörðu stauranna sem eru 1,5 m. Innlendu lerkistaurarnir eru í tveimur þvermálsflokkum, 70-100 mm og 40-60 mm, en greni og stafafura er í þvermálsflokknum 70-100 mm (mælt í grennri enda). Allir staurar voru reknir um það bil 60 cm niður í jörðina.

Þessi tilraun var sett út sem slembitilraun, fimm blokkir með 4 staura af hverri meðferð í blokk, samtals 20 staurar af hverri tegund. Samtals gerir það 120 staura í hvora landgerð, sett upp í raðir með 100 cm millibili, bæði á milli raða og blokka. Áður en staurarnir voru reknir niður var þvermál beggja enda mælt. Mælt var hlutfall rysju og kjarnviðar í grennri enda lerkistauranna og árhringir taldir í öllum staurum. Út frá þvermáli og fjölda árhringja var reiknaður út fjöldi árhringja á sentímetra.

Árlega verður ending staurana mæld. Það er gert með því að festur er mælir á enda staursins og togað í lárétt (mynd 1). Átakið á að vera 22,5 kg (50 lb.) sem er áætlað það álag á staurunum ef á þeim væri net. Á mynd 2 sést yfir tilraunina í mýri og á mynd 3 í mólendi.


Tafla 1. Grunnmæling, staurar þurrlendi

  MEÐALTÖL ÞURRLENDI
Tegund Þvermál uppi cm Þvermál niðri cm Þvermál miðja cm Kjarnviður uppi cm Hlutfall kjarnviðar % Árhringir Árhringir á cm Þyngd kg
Lerki
40-60 mm
4,93 6,82 5,87 1,68 34,09 5,8 2,3 2,28
Fúavarðir 70 mm 6,70 6,67 6,68     15,0 4,5 3,13
Greni 70-100 mm 7,50 8,77 8,13     17,2 4,6 4,61
Fúavarðir 50 mm 4,81 4,82 4,81     12,2 5,1 1,28
Lerki
70-100 mm
7,95 10,04 9,00 4,28 53,79 9,0 2,3 5,75

 

Tafla 2. Grunnmæling, staurar mýri

  MEÐALTÖL MÝRI
Tegund Þvermál uppi cm Þvermál niðri cm Þvermál miðja cm Kjarnviður uppi cm Hlutfall kjarnviður % Árhringir Árhringir á cm Þyngd kg
Lerki 40-60 mm 5,06 6,85 5,95 1,77 34,90 6,0 2,4 2,40
Fúavarðir 70 mm 6,76 6,73 6,75     16,4 4,8 3,25
Greni 70-100 mm 7,04 8,47 7,75     17,0 4,8 4,43
Fúavarðir 50 mm 4,85 4,85 4,85     13,3 5,5 1,37
Lerki 70-100 mm 7,81 9,72 8,76 4,34 55,64 9,0 2,3 5,65


Heimildir

Lee, E.T. 1980. Statistical methods for survival data analysis. Belmont, CA: Lifetime Learning Publications.

Markstrom, D.C. and Gjovik, L.R. 1992. Service life of treated and untreated Black Hills Ponderosa pine fenceposts. US Forest Service, Research Paper, RIM-300.

Markstrom, D.C. and Gjovik, L.R. 1999. Service Life of fence posts treated by double-diffusion methods. US Forest Service, Research Paper, RMRS-RP-17.

Texti: Lárus Heiðarsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Lárus Heiðarsson