Skógrækt við Patreksfjörð. Ljósmynd: Sæmundur Þorvaldsson
Skógrækt við Patreksfjörð. Ljósmynd: Sæmundur Þorvaldsson

Skógræktarstjóri og sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar fara um Vestfirði í byrjun september til að hitta heimafólk og skoða svæði sem stofnunin gæti mögulega tekið til skógræktar. Það yrðu fyrstu þjóðskógar Vestfjarða ef af verður.

Fjallað er um þetta í héraðsfréttablaðinu Bæjarins besta og vísað í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Þar kemur fram  að forsvarsmenn Skógræktarinnar séu væntanlegir vestur á firði dagana 3. til 8. sept­em­ber. Þá muni Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógar­auðlinda­sviðs, ásamt heimamönnunum og skógræktarráðgjöfunum Sæmundi Þorvaldssyni og Kristjáni Jónssyni fara um Vestfirði til að skoða jarðir eða svæði sem hugsanlega kæmu til greina til ræktun þjóðskógar á komandi árum.

Frétt Bæjarins besta 28. ágúst um þjóðskóg á VestfjörðumÁ fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 27. ágúst var lagt fram minnisblað Þórdísar Sifjar Sigurðar­dóttur, starfandi bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst um væntanlega heimsókn forsvarsmanna Skógræktarinnar til að skoða jarðir undir þjóðskóg á Vestfjörðum. Á fundinum fól bæjarráð bæjarstjóra að hitta forsvarsmenn Skógræktarinnar og bjóða þeim bæjarfulltrúum sem hefðu áhuga og tök á að mæta að sitja fundinn.

Í fundargerð er haft eftir Sæmundi Þorvaldssyni, skógræktarráðgjafa hjá Skógræktinni, að nærtækast væri að horfa til jarða í eigu ríkisins, sem ekki eru í ábúð, svo fremi að þær henti almennt til skógræktar af öðrum ástæðum og að aðgengi að þeim sé gott. Fáar ríkisjarðir eða jafnvel engar séu norðan Arnarfjarðar í Ísafjarðarbæ en í hinum forna Auðkúluhreppi séu nokkrar í eigu ríkis eða ríkisstofnana. Einnig geti Skógræktin hugsað sér að gera langtíma­samninga um heppilega jörð í eigu sveitarfélags. Nefndar eru jarðir innan marka sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar s.s. Sandar í Dýrafirði og Kirkjuból í Engidal og að ef til vill séu þær fleiri.

Á landinu er fjöldi þjóðskóga sem allir eru opnir almenningi og í sumum þeirra hefur verið byggð upp aðstaða fyrir gesti til útivistar og jafnvel tjaldsvæði í fáeinum þeirra. Skógræktin á eða hefur í sinni umsjá ríflega fimmtíu lendur um allt land að undanskildum Vestfjörðum. Skógarnir sem vaxa í umsjónarlöndum Skógræktarinnar eru kallaðir þjóðskógar enda skógar þjóðarinnar. Margir skóganna eru í alfaraleið og því vel aðgengilegir en aðrir eru úr alfaraleið og jafnvel erfitt að komast að sumum þeirra.

Frá upphafi hefur meginhlutverk Skógræktarinnar verið að vernda skóglendi sem fyrir er í landinu, stuðla að útbreiðslu þess og rækta nýja skóga. Stofnunin hefur jafnframt fræðslu- og rannsóknarhlutverki að gegna, sinnir ráðgjöf, stefnumótun og fleiri þáttum sem snerta skógrækt. Með þjóðskógi á Vestfjörðum gegnir stofnunin öllum þessum hlutverkum sínum og þjónar íbúum og gestum Vestfjarða.

Texti: Pétur Halldórsson