Íslenskur birki- og sitkagreniskógur.
Íslenskur birki- og sitkagreniskógur.

Fram undan að ræða við starfsfólkið á öllum starfstöðvunum

Í gær, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn fyrsti fundur framkvæmdaráðs Skógræktar­inn­ar, en í því eiga sæti sviðstjórar stofnunarinnar auk fagmálastjóra og skógræktarstjóra. Mætt voru Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrarsviðs, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs, Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs, Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri og áfram sviðstjóri rannsóknasviðs um stund, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Ingibjörg Jónsdóttir ritaði fundargerð.

Á fundinum var rætt um þau meginmarkmið að ná meiri og betri árangri í skógrækt. Þar koma mörg verkefni til sögunnar og ekki síst samstarf við aðra aðila. Mikið var rætt um samstarf við skógareigendur um að efla gróðursetningu, um samstarf við Landgræðsluna um sameiginleg verkefni, um samstarf við Landbúnaðarháskólann um fræðslu og um samráð við ráðuneyti um eignir. Þá var rætt um fyrirkomulag framlaga, rannsóknir, fræ- og plöntumál, kynbætur, fræðslu og ráð­gjöf og margt fleira. Einnig var rætt um nauðsyn þess að fá ný skógræktarlög og að hefja vinnu við gerð lands­áætl­un­ar og landshluta­áætl­ana í skógrækt. Markaðsmál og kynningarmál bar talsvert á góma.

Á þessum fyrsta fundi framkvæmdaráðs var með öðrum orðum farið vítt yfir sviðið. Hugmyndir og skoðanir voru viðraðar og reyndist hópurinn býsna samstíga. Nokkrar ákvarðanir voru líka teknar.

Meðal fyrstu ákvarðanna var að auglýsa eftir nýjum sviðstjóra rannsóknasviðs (forstöðumanni á Mógilsá) og er auglýsingin þegar komin á Starfatorg, auk vefs Skógræktarinnar. Þá var ákveðið að auglýsa eftir skógarverði á Suðurlandi og verður það væntanlega gert í næstu viku.

Ákveðið var að næstu skref í skipulagningu nýrrar stofnunar yrðu að ræða við starfsfólk um framtíðarstörf þeirra, með bæði væntingar þeirra og þarfir Skógræktarinnar í huga. Fundir verða haldnir á komandi vikum með starfsfólki á hverjum vinnustað þar sem viðkomandi sviðstjóri, skógræktarstjóri og fagmálastjóri mæta. Mest er að gera á skógarauðlindasviði í þeim efnum og verður byrjað á Akureyri 15. ágúst. Aðrir fundir verða síðan skipulagðir í framhaldinu.

Mikilvægt er að ræða við starfsfólk fljótlega og ná heildarmynd af verkefnum stofnunarinnar svo hægt verði með góðu móti að stilla upp verkefnabókhaldskerfi. Stefnt er að því að fjármálateymið, sem hefur þegar fundað einu sinni, geti byrjað á því í september. 

Rætt var um skipulag sviða og m.a. ákveðið að umsýsla sem tengist fjölsóttum ferðamannastöðum skyldi fylgja Hreini á samhæfingarsvið.  Að þeim málum vinnur hann svo einkum í samstarfi við skógarverðina.

Ákveðið var að halda lokaða samkeppni um nýtt merki Skógræktarinnar og var Pétri Halldórssyni kynningarstjóra falið að hefja það verkefni strax að loknum fundi.

Loks var ákveðið að hittast aftur innan ekki langs tíma og halda áfram þar sem frá var horfið.

Texti: Þröstur Eysteinsson