Urð og grjót varð að skógi

Garðplöntustöðin Nátthagi er í Ölfusi, skammt austan við Hveragerði. Þar hefur Ólafur Sturla Njálsson garðyrkjufræðingur um árabil ræktað trjáplöntur og ófáir fundið hjá honum fágætar tegundir til að prófa. Ólafur sendi vefnum skogur.is fallegar myndir sem sýna þá miklu breytingu sem orðið hefur á landinu í Nátthaga frá því að hann tók þar til við ræktun fyrir hartnær aldarfjórðungi.

Fyrri myndin er af vinnuskúrnum í Nátthaga, tekin rétt eftir að skúrinn hafði verið fluttur á staðinn, 20. maí 1990. Myndin er tekin frá vestsuðvestri og sést upp brekkuna bak við skúrinn þar sem var ýmist nauðbitinn mói, melur eða urð og grjót.

Sú seinni er loftmynd sem Ólafur keypti (myndasmiður Jón Karl Snorrason) og er tekin í júlí eða ágúst 2010 af sama svæði.  Skúrinn sést neðst á myndinni sem lítið grænt hús og þar býr Ólafur enn enda hefur hann varið öllu sínu í að byggja upp atvinnureksturinn, hús, tæki og tól og plöntur og fleira og fleira síðan,eins og hann segir sjálfur frá.

Tuttugu ár eru á milli þessara tveggja mynda. Ólafur segir: „Þegar ég kaupi þessa 5,6 hektara er landið vita allslaust, ekkert hús, vegur, rafmagn, kalt vatn né heitt vatn.  Minnti mest á illa gróna túndruna ofar í fjallinu. Fjallið heitir Bjarnarfell og er bara 367 metra hátt, en samt svona hrikalega illa gróið, að lítið er orðið eftir nema ógróinn melur, urð og grjót með mosa hér og þar. Gamlar gróðurtorfur sýna hvað var. Svo heppinn er ég að hafa fundið tvær birkihríslur í efra landinu (á einnig 10 hektara fyrir ofan þjóðveginn) þar sem snjór hvílir oft lengi fram á vor. Á þeim stað er töluvert um aðalbláberjalyng. Birkihríslurnar uxu upp við friðun mína og niður í jörðinni finn ég gamlan rótarlurk sem þær eru vaxnar upp af, sennilega sent upp teinung árlega sem hefur verið bitinn í hundruð ára, en náð að lifa af. Birkið sem vaxið hefur upp af þessum gömlu rótum er eins og Grímsnesbirkið að sjá, kræklóttur skógviðarbróðurblendingur. Ég kalla svoleiðis birki „ísaldarbirki“  og segi hreint út: Við getum betur en þetta!“

Texti: Pétur Halldórsson
Eldri mynd af Nátthaga: Ólafur Sturla Njálsson
Yngri mynd af Nátthaga: Jón Karl Snorrason