Lognið kom með skóginum

Stöðvarhús Rannsóknastöðvar Skógræktar, Mógilsá er þjóðargjöf Norðmanna til skógræktar á Íslandi, gefin Skógrækt ríkisins árið 1961. Núverandi Noregskonungur, Haraldur V, vígði húsið og var þá krónprins Norðmanna. Húsið er steinsteypt en klætt með timbri. Það hýsir rannsóknarstofur og skrifstofur starfsmanna, fundarsal og bókasafn. Við suðurhlið hússins var reist rannsóknargróðurhús. Tengibygging milli gróðurhúss og stöðvarhúss var upphaflega vélageymsla en var breytt í bókasafn og fundaraðstöðu. Stöðvarhúsið teiknuðu Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, og Gunnlaugur Pálsson arkitekt. Yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson.

Þegar starfsemi Skógræktar ríkisins hófst á Mógilsá var þar enginn skógur. Staðurinn var mjög vindasamur enda steyptist norðanáttin ofan af Esju og náði miklum hraða við fjallsræturnar. Nú hreyfir varla hár á höfði á hlaðinu við stöðvarhúsið á Mógilsá hvernig sem viðrar. Skógurinn á Mógilsá er gott dæmi um hversu mjög skógrækt getur breytt veðurfari til hins betra. Ekki þarf nema fáeina áratugi til að þessi áhrif verði veruleg. Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan til að sjá fleiri myndir sem sýna breytinguna á Mógilsá.

Texti: Pétur Halldórsson
Eldri mynd: Höfundur ókunnur
Yngri mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson