Jan Klitgard stendur þar sem girðingin stóð áður. Við fyrstu sýn mætti halda að myndin væri úr suðræ…
Jan Klitgard stendur þar sem girðingin stóð áður. Við fyrstu sýn mætti halda að myndin væri úr suðrænum regnskógi en hér hefur alaskavíðirinn vaxið upp þar sem áður var rofið land og reyniviður borist í landið líka, sennilega með fuglum. Myndina tók Árni Sigurbjarnarson 2016.

Úr rýru landi í skóg

Víða um land eru skemmtileg dæmi um hvernig snauðu landi hefur verið breytt í gróskumikinn skóg. Umhverfi Húsavíkur hefur til að mynda breyst mjög síðustu áratugi. Melar og moldir sem áður blés ryki úr yfir bæjarbúa hafa nú klæðst gróðri og þar hefur lúpína reynst vel við uppgræðsluna.

Hér eru tvær skemmtilegar „fyrir og eftir“ myndir teknar á nákvæmlega sama stað með 22 ára millibili. Þær tók Árni Sigurbjarnarson, tónlistaskólastjóri á Húsavík, sem hefur verið einn af forystumönnum landgræðslufélagsins Húsgulls. Á yngri myndinni stendur Jan Klitgaard þjóðfræðingur sem starfað hefur bæði sem garðyrkjustjóri og forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík.

Girðingin á eldri myndinni er gamla skógræktargirðingin á Skálamel. Þar var girt laust fyrir 1970 en skömmu síðar flutti Hjörtur Tryggvason lúpínu í afgirta landið. Eldri myndin var tekin 1994. Vorið áður fékk Þröstur Eysteinsson börnin sín með sér til að stinga þarna niður alaskavíði­græðlingum. Víðirinn var bæði settur niður í lúpínunni innan girðingar og í lúpínu­lausan melinn utan hennar. Á myndinni hér neðst er Sóley Þrastardóttir, núverandi tónlistaskólastjóri á Egilsstöðum, við þessa vinnu.

Skömmu síðar var stærra svæði umhverfis Húsavík friðað og gamla skógræktargirðingin í Skálamelnum fjarlægð. Þegar beitinni hafði verið aflétt tók lúpínan loks að þrífast utan við girðinguna. Á myndinni sem minnir á frumskóg má sjá að alaskavíðirinn hefur að vaxa með aðstoð lúpínu bæði innan og utan girðingarinnar en bilið þar sem Jan stendur er einmitt þar sem girðingin var. Ekki nóg með það heldur hafa nafnar skógræktarstjóra, skógarþrestirnir, bætt um betur og borið reynivið á svæðið.


Texti:Pétur Halldórsson