Mjög ólíkar tegundir gróðurs í eynni og næsta nágrenni hennar

Náttúrufræðingarnir Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Sigurður H. Magnússon flytja á mánudaginn kemur erindi um rannsóknir á góðurfari í Viðey í Þjórsá og nálægum árbökkum. Fundurinn hefst kl. 17.15 mánudaginn 28. apríl í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, stofu 132. Niðurstöður þeirra sýna að gróðurfar í eynni er fjölskrúðugt og mjög ólíkt því sem er á fastalandinu í kring.

Viðey er stök eyja í Þjórsá, suðaustan við bæinn Minna-Núp í Gnúpverjahreppi. Vegna þess hve áin er djúp og straumþung á þessum stað hefur hún að mestu fengið að vera í friði fyrir ágangi manna og búfjár. Eyjan gefur hugmynd um það hvernig gróðurfar væri á þessum slóðum ef land hefði ekki verið beitt. Nú eru uppi áform um að stífla Þjóðrsá ofan Viðeyjar fyrir svokallaða Hvammsvirkjun. Ef af þessu verður minnkar rennsli Þjórsár fram hjá Viðey og þar með sú vernd sem áin veitir gróðrinum þar.

Í erindi sínu segja þau Anna Sigríður og Sigurður frá rannsókn sem hafði það merginmarkmið að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara því hvaða gerðir gróðurs væri að finna í eynni hver þekja hans væri og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður- og landgerðum í eynni og bera það saman við svipað land beggja vegna árinnar. Einnig var athugað hvort í eynni fyndust sjaldgæfar plöntutegundir.

Lagðir voru út 13 reitir sumarið 2009, fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Athuganir á þeim sýna að fjórar megingerðir gróðurs finnast í Viðey, birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. 74 tegundir háplantna fundust, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landinu, grænlilja og kjarrhveiti. Í ljós kom að þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri sem er á bökkum árinnar en niðurstöður þessara athugana ríma hins vegar vel við það sem sést hefur á öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til að vernda lítt snortinn og gróskumikinn birkiskóg og það lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs treystir rannsóknin sérstaklega treyst vísinda- og fræðslugildi eyjarinnar, að sögn þeirra Önnu Sigríðar og Sigurðar.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S.-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D.-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.

Fundurinn hefst kl. 17.15 í Öskju í Reykjavík, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, stofu 132.

Á meðfylgjandi ljósmynd sést Viðey í Þjórsá. Myndin er af viðburðarsíðu Náttúrufræðingafélags Íslands á Facebook.

Heimild: www.natturan.is.