Fyrirlestur til meistaraprófs við líffræðiskor Háskóla Íslands verður haldin þriðjudaginn 9. apríl 2002 kl. 16.00 í stofu G - 6, Grensásvegi 12.  Fyrirlesturinn ber nafnið:  Áhrif skógræktar og landgræðslu á jarðvegslíf.

Edda Sigurdís Oddsdóttir lauk B.S. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1995 og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla 1997. Hún hóf meistaranám sitt við líffræðiskor Háskólans árið 1999.

 Í verkefninu voru áhrif mismunandi uppgræðsluaðferða á jarðvegslíf könnuð með það að markmiði að kanna áhrif þeirra á

·        þéttleika jarðvegsdýra (mordýra og mítla) 

·        niðurbrotsvirkni jarðvegsörvera

Þrjú tilraunasvæði voru valin í landi Gunnarsholts á Rangárvöllum.  Svæðin voru u.þ.b. 55 ára birkiuppgræðsla, 4 ára lúpínuuppgræðsla og 22 ára grasuppgræðsla, auk óuppgræddra svæða í námunda hvers uppgræðslusvæðis sem höfð voru til viðmiðunar.  Jarðvegsdýrum var safnað þrisvar sinnum sumar og haust 2000.  Smáliðdýr voru greind til ætta (mordýr, Collembola) og undirættbálka (mítlar, Acarina).  Auk þess var virkni jarðvegsörvera metin og leitað að þráðormum (Nematoda) sem sýkja skordýr í jarðvegi. 

Þéttleiki og fjölbreytni jarðvegsdýra var meiri á uppgræddum svæðum en á viðmiðunarsvæðum.  Flest dýr fundust á svæðum græddum með lúpínu og birki en fæst dýr óuppgræddum svæðum.  Algengustu hópar dýra sem fundust voru stökkmor og brynjumítlar.  Brynjumítlar voru algengastir á birkisvæðinu en stökkmor var algengasti hópurinn á lúpínusvæðinu.  Á grassvæðinu fundust báðir hópar en hvorugur var ríkjandi. 

Þekja einstakra háplöntutegunda, hafði merkjanleg áhrif á tegundasamsetningu jarðvegsdýra en tegundasamsetning háplöntutegunda virtist ekki hafa mikil áhrif á tegundasamsetningu dýranna.

Þráðormar sem sýkja skordýr fundust einvörðungu í sýnum af lúpínusvæðinu og bendir frumathugun til þess að þetta séu ormar af ættkvíslinni Steinernema.  Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem slíkir þráðormar finnast hér á landi.

Niðurbrotsvirkni jarðvegsörvera var meira á uppgræddu svæðunum en á viðmiðunarsvæðum og mældist mest niðurbrot á svæði græddu með lúpínu.  Marktæk fylgni var milli niðurbrotshlutfalls og þéttleika smáliðdýra og niðurbrot lífrænna efna virðist því vera örast þar sem mikið er um mítla og mordýr í jarðvegi. 

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að þéttleiki jarðvegsdýra og virkni jarðvegsörvera séu lítil á óuppgræddum svæðum en aukist með uppgræðsluaðgerðum.  Jarðvegslífverur eru mikilvægar varðandi næringaröflun plantna þar sem áhrif þeirra á niðurbrot lífrænna leifa og losun næringarefna í jarðveginum eru mikil.  Því er mikilvægt að við uppgræðsluaðgerðir sé tekið tillit til framvindu jarðvegslífs. 

 Verkefnið var unnið við Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, undir leiðsögn dr. Gísla Más Gíslasonar, prófessors við líffræðiskor, og dr. Guðmundar Halldórssonar, sérfræðings hjá Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá. Prófdómari er dr. Hólmfríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs á Skipulagsstofnun.

Fyrirlesturinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.