Í lok september og byrjun október sl. fór starfsfólk Héraðs- og Austurlandsskóga, ásamt sviðsstjóra þjóðskóga Skógræktar ríkisins, í tveggja vikna kynnisferð um skóga og þjóðgarða í vestanverðri N-Ameríku. Margt forvitnilegt varð á vegi þeirra og verður sagt frá því í máli og myndum hér á skogur.is á komandi vikum.

Í sunnanverðri Bresku Kólumbíu í Kanada sáust greinileg merki þess að fregnir af eyðileggingu á stafafuruskógum af völdum barkbjöllu sem einkum herjar á furur (e. mountain pine beetle, Dendroctonus ponderosae) eru ekki ýktar. Á stóru svæði milli strandfjalla og Klettafjalla sáust stafafurulundir þar sem aðeins fá lifandi tré stóðu eftir. Önnur svæði höfðu verið rjóðurfelld til að nýta það sem mögulegt var og þar var búið að gróðursetja á ný. Ungir og fallegir furuskógar komnir í stað eyðileggingarinnar.

Orsök bjöllufaraldursins má rekja til nokkurra samverkandi þátta. Í fyrsta lagi hefur sú stefna verið rekin í marga áratugi að koma í veg fyrir skógarelda, en um leið eru skógarnir sjaldnast grisjaðir. Það tvennt saman hefur í för með sér að skógarnir sjálfgrisjast (stærri tré skyggja þau minni út) og við það verður til mikið magn af dauðum bolum og greinum í skógarbotninum sem eru einmitt helstu búsvæði barkbjöllunnar, en undir eðlilegum kringumstæðum éta lirfur bjöllunnar einkum við dauðra trjáa og fallinna greina. Gnótt fæðu á stóru svæði ásamt mildum vetrum undanfarin ár leiddi af sér að bjöllunum fjölgaði mikið. 

Í öðru lagi eru stafafuruskógarnir að eldast og eldri tré hafa minni mótstöðu gegn ýmsum skaðvöldum en yngri tré. Þá hafa miklir þurrkar verið í vestanverðri N-Ameríku undanfarin ár, sem veikir trén enn meira. Bjöllurnar virðast ekki gera greinarmun á dauðum trjám og gömlum, þurrkstressuðum trám og ráðast á hvort tveggja. Þegar stofnstærðin er í hámarki ráðast bjöllurnar á allar furur. Trén drepast svo þegar lirfurnar éta vaxtar- og sáldæðalagið undir berkinum.

Víðáttumestu stafafuruskógar heims eru í Bresku Kólumbíu og áætlað er að um 16 milljónir hektara stafafuruskóga þar séu meira eða minna skemmdir af völdum furubjöllunnar. Það er meira en eitt og hálft Ísland að flatarmáli. Megnið af viðnum í nýdauðu trjánum er vel nothæfur en gæðin minnka ört þegar trén taka að fúna. Því keppast menn við að fella trén til nytja og endurnýja skógana með gróðursetningu. Umfangið er hins vegar svo mikið að ekki verður ráðið við allt og því munu bjölludrepnar stafafurur vera áberandi í landslaginu í allmörg ár.

 

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson