Köngull af lerki.
Köngull af lerki.

Forgangsmál ríkisstjórnarinnar kynnt á næstu dögum

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um nýja skógræktarstofnun er meðal þeirra mála sem ráðherrar ríkisstjórnar leggja áherslu á að þingið ljúki áður en gengið verður til kosninga í haust.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Útvarps í gær og einnig er sagt frá málinu á vef Ríkisútvarpsins. Umrætt mál er annað tveggja þeirra mála sem Sigrún Magnús­dóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, setur á oddinn.

Af öðrum málum sem ráðherrarnir vilja að verði afgreidd í vor og sumar má nefna mál sem snerta afnám hafta, húsnæðismál og almannatryggingar, búvörusamninga, millidómstig og samgönguáætlun, nýja geðheilbrigðisáætlun, málefni LÍN, þjóðaröryggisráðs og fleira.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að ekki sé víst að öll þessi mál komist á lista ríkisstjórnarinnar en samkvæmt heimildum fréttastofu verði forgangsmál hennar kynnt á næstu dögum.

Texti: Pétur Halldórsson