Björt Ólafsdóttir mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær.
Björt Ólafsdóttir mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær.

Þingmenn jákvæðir fyrir frumvarpinu og vilja auka skógrækt

Alþingi tók í gær til umræðu stjórnar­frum­varp til nýrra laga um skóga og skógrækt, þingskjal 538 - 470. mál. Þingmenn sem tóku til máls töldu mikilvægt að auka fram­lög til skógræktar enda væri þetta hag­kvæm leið til kolefnisbindingar upp í skuld­bindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu.

Eldri skógræktarlög eru frá árinu 1955 og þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafa verið á þeim er löngu tímabært að setja skóg­rækt í landinu nýja löggjöf. Þekkingu á skóg­rækt hefur fleygt fram, mikil reynsla hefur fengist og breytingar hafa orðið bæði í samfélaginu og á annarri löggjöf sem áhrif hefur á skógrækt í landinu. Landið er líka enn að mestu skóglaust og verk að vinna. Áfram er ástæða til að vernda skóga landsins, rækta nýja og nýta skógana með sjálfbærum hætti sem endurnýjanlega auðlind.

Í texta um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar segir orðrétt í frumvarpinu:

Uppfærð heildarlög um skóga og skógrækt eru lykillinn að því að hægt sé ná þeim fjölbreyttu markmiðum sem nauðsynlegt er að vinna að í skógrækt nú á dögum.

Markmið laganna eru:

a.      að vernda náttúruskóga landsins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra,
b.      að vernda og endurheimta líffræðilega fjölbreytni,
c.      að rækta nýja skóga til að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind til sjálfbærra nytja,
d.      að nýting skóga sé sjálfbær þannig að skógarnytjar skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið,
e.      að skógrækt verði í samræmi við skipulagsáætlanir og náttúruvernd og þá sérstaklega 2. og 3. gr. laga um náttúruvernd um verndarmarkmið,
f.      að auðvelda aðgengi fólks að skógum til útivistar og auka þekkingu fólks á málefnum skóga og skógræktar,
g.      að stuðla að kolefnisbindingu með ræktun skóga og aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum,
h.      að skógrækt nýtist til að vernda jarðveg og draga úr hugsanlegu tjóni af völdum náttúruhamfara.

Þingmenn jákvæðir

Á fundi Alþingis í gær mælti Björt Ólafsdóttir fyrir frumvarpinu og fór yfir helstu efnisatriði þess. Í umræðu að því loknu tóku til máls þrír þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, Ari Trausti Guðmunds­son og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Steingrímur spurði ráðherra meðal annars hvaða hlut stjórnvöld teldu að skóg­rækt í landinu ætti að hafa í aðgerðum Íslendinga til að mæta skuldbindingum vegna Parísarsamningsins. Hann lýsti vonbrigðum með að ekki skyldi hafa verið farið í metnaðarfull skógræktarverkefni gegnum samningskerfi landbúnað­ar­ins í kjölfar undirritunar þess samnings. Miður væri hversu mjög hefði dregið úr framlögum til nýskógræktar hin síð­ari ár en landsáætlun í skógrækt sem gert er ráð fyrir í nýjum lögum væri mjög til bóta. Ráðherra svaraði því til að hún teldi að skógrækt ætti að vera mjög stór þáttur í aðgerðum Íslendinga í loftslagsmálum og vísaði meðal annars til þess hversu lítil skógarþekja landsins væri. Fyrir Íslendinga skipti miklu máli að Íslendingar fengju að telja bindingu með skógrækt fram í kolefnisbókhaldi og fyrir því væri barist í alþjóðlegu samstarfi.


Margir velta fyrir sér hvernig skógrækt verði skipaður sess í boðaðri aðgerðar­áætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Umhverfis­ráðherra nefndi í andsvari að nú þegar væri ljóst samkvæmt fjármálaáætlun ríkis­stjórn­ar­inn­ar að milljarða aukningar væri að vænta í umhverfismál en ekki hefði verið fastsett hversu mikið yrði lagt til skógræktar af því. Sjálf legði hún mikla áherslu á aðgerðir í skógrækt og land­græðslu, ekki síst vegna þess að þar væri auðvelt og fljótlegt að auka við enda góðir innviðir stofnana fyrir hendi. Björt talaði einnig um áherslu sína á að fá atvinnulífið, til dæmis stóriðjuna, til að ráðast í binding­ar­verkefni á þessu sviði.

Ari Trausti Guðmundsson talaði um að stöðugleika vantaði í skógræktina sem atvinnugrein og binding með skógi væri mjög vænleg loftslagsaðgerð enda mætti auka bindingu með skógrækt upp í eina milljón tonna á ári um miðja öldina með því að fjórfalda gróðursetningu frá því sem nú er. Hann nefndi möguleika á hagaskógrækt og land­græðslu­­skógrækt með tilheyrandi eflingu vistkerfa. Meira fé þyrfti að leggja í útbreiðslu skóga með því m.a. að stuðla að sjálfgræðslu þeirra. Hann nefndi einnig að það flatarmál sem þyrfti til að Ísland yrði sjálfu sér nógt um timbur væri ekki nema lítið brot af landinu og ekki færi mikið fyrir slíkum nytjaskógum þegar þeir væru dreifðir um landið. Augljóst mál væri að sjálfbær þróun á Íslandi tæki skref fram á við í hvert skipti sem bætt væri í skógræktina.

Mögulegar breytingar á stofnunum

Ari Trausti spurði ráðherra hvað henni þætti um þá hugmynd að setja á fót auðlindastofnun þar sem ákveðin verkefni Umhverfisstofnunar væru vistuð ásamt t.d. Skógræktinni og Landgræðslunni. Ráðherra sagði að sér litist vel á þær hugmyndir og þær væru í athugun.


Síðastur tók til máls Kolbeinn Óttarsson Proppé sem sagðist vita vel hversu mikil áhrif skógrækt gæti haft á umhverfið, ekki síst á svæðum eins og í Þjórsárdal þar sem hann þekkir til. Hann sagðist styðja aukna skógrækt en henni þyrftu að fylgja örugg framlög. Sjást þyrfti betur að stjórn­völd meintu það sem þau segðu um að­gerðir í loftslagsmálum. Ekki væri hægt að finna því stað í fjármála­áætlun ríkis­stjórnarinnar að auka ætti skógrækt. Taka þyrfti þessi mál alvarlega og ekki væri nóg að treysta á mögulega fjármuni úr atvinnu­lífinu, svo sem frá stóriðjunni, til að auka skógrækt. Hann hvatti umhverfisráðherra til að beita sér fyrir breytingu á fjármála­áætlun­inni í þá átt að framlög til umhverfismála yrðu aukin.

Líkt og Ari Trausti ræddi Kolbeinn líka um stofnanir á sviði umhverfismála og velti því upp hvort ef til vill væri verið að festa núverandi stofnanakerfi í sessi með setningu nýrra heildarlaga um t.d. skógrækt og hvort það myndi e.t.v. tefja fyrir mögulegri sameiningu stofnana eða nýjum stofnunum á þessu sviði.

Lítið fór fyrir efnislegri gagnrýni á frumvarpið sem í lok fundar var vísað til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngu­nefnd. Með hlekknum hér fyrir neðan má komast á vef Alþingis þar sem horfa má á umræðuna í gær og lesa textann þegar hann verður tilbúinn.

Texti: Pétur Halldórsson