Rakinn þéttist í skóginum og gerir umhverfið enn dulúðlegra.
Rakinn þéttist í skóginum og gerir umhverfið enn dulúðlegra.

Skógræktarfólk frá Íslandi á ferð í Póllandi

Białowieża-frumskógurinn í Póllandi hefur notið einhvers konar friðunar allt frá því um miðja 15. öld. Um 1.400 ferkílómetrar hans eru nú á heimsminjaskrá UNESCO. Fjórtán manna hópur skógræktarfólks frá Íslandi skoðaði skóginn á dögunum í fylgd skógarvarða.

Elstu heimildir um einhvers konar friðun í skóginum eru frá því fyrir miðja 15.öld. Kóngar og keisarar fyrri alda vildu koma í veg fyrir hefðbundnar nytjar skóganna og umsvif enda höfðu þeir mikla hagsmuni af því að varðveita verðmæt veiðidýr, einkum vísindahjarðir sem þá reikuðu enn um Białowieża-frumskóginn en voru orðnar afar sjaldgæfar annars staðar á meginlandi Evrópu.

Skógurinn varð því að eins konar konunglegum veiðilendum þó ekki væri það óslitið enda saga svæðisins róstusöm. Frá árinu 1921 hefur meginkjarniskógarins verið algerlega friðaður fyrir athöfnum manna. Hvorki er þar átt við skóginn né þær lífverur sem í honum búa. Árið 2014 voru 1.420 km2 skógarins settir á heimsminjaskrá UNESCO, menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það svæði er ekki allt í Póllandi heldur nær það að hluta til yfir í Hvíta-Rússland einnig. Innan pólsku landamæranna er þjóðgarður á 152 ferkílómetrum og þar af eru um 4.800 hektarar algerlega friðaðir. Þar fær enginn svo mikið sem að drepa niður fæti nema í fylgd þjóðgarðsvarða.

14 Íslendingar eyddu einum degi í þessu musteri náttúrunnar fyrr í haust, gengu þar í fylgd þjóðgarðsvarða og upplifðu fjölbreytt skógvistkerfið. Yfirhæð barrtrjáa er liðlega 40 metrar en lauftrjáa u.þ.b. 10 metrum lægri. Á hverjum hektara eru um 520 rúmmetrar viðar en þar af eru 120 rúmmetrar dauður viður.

Sjón er sögu ríkari en meðfylgjandi myndir gefa dálitla innsýn í hið stórbrotna umhverfi eins merkasta frumskógar í okkar heimshluta.

Kort af svæðinu í Białowieża sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Svarta línan sýnir landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands en sú rauða mörk þess svæðis sem er á heimsminjaskránni. Dökkgræni liturinn markar svæði sem njóta mestrar verndar.


Texti: Sæmundur Þorvaldsson
Myndir: Ólafur Oddsson