Sveitarfélögin eru í dauðafæri til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar með skógrækt, sagði Þórdí…
Sveitarfélögin eru í dauðafæri til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar með skógrækt, sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir á fagráðstefnu skógræktar í dag. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Þrjú viðfangsefni voru til umræðu með pallborðum á fagráðstefnu skógræktar sem hófst í morgun á Hótel Geysi í Haukadal. Skógræktarstjóri minnti á að einungis átján ár væru þar til Ísland ætlaði að verða kolefnishlutlaust. Borgarfulltrúi í Reykjavík sagði dauðafæri í skógrækt fyrir sveitarfélög um allt land til atvinnusköpunar og uppbyggingar.

Lítill tími er til stefnu fram til 2040, að sögn skógræktarstjóra. Ljósmynd: Pétur HalldórssonFyrsta viðfangsefni dagsins var skógræktarstefna til 2030. Þar talaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri um þann litla tíma sem eftir væri fram til 2040 þegar Ísland hefði sett sér að verða kolefnishlutlaust. Bretta þyrfti upp ermar. „Ísland hefur ákveðið að verða kolefnishlutlaust 2040. Það er eftir átján ár. Við höfum ekki mikinn tíma,“ segir Þröstur sem fór í erindi sínu yfir aðferðir til að tryggja ábyrga kolefnisbindingu með vottuðum einingum. Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri á skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu, talaði um samspil landsáætlana í skógrækt og landgræðslu sem nú eru til umfjöllunar í ráðuneytinu. Stefnt væri að því að gefa út efni þessara áætlana með samhæfðum, aðgengilegum hætti.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík og skógarbóndi, talaði um tækifærin sem fælust í skógrækt fyrir sveitarfélögin. Hún sagði sveitarfélögin í dauðafæri. „Skógrækt er dauðafæri fyrir sveitarfélög í atvinnusköpun og uppbyggingu um allt land,“ segir Þórdís og í kjölfar hennar talaði Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, sem sagði skógrækt mikilvæga en standa þyrfti vörð um náttúruvernd og huga að ágengni influttra tegunda.

Frjóar pallborðsumræður fylgdu í kjölfarið og það sama má segja um hin tvö viðfangsefni dagsins, þar sem fjallað var á fróðlegan hátt um annars vegar kolefnisbindingu, ný markmið, nýja aðila og vottun en hins vegar um viðarafurðir til framtíðar. Kolefnismálin þróast hratt þessi misserin og munu gera áfram um hríð og það sama má segja um afurðamálin. Kominn er vísir að skógarauðlind og ýmislegt að gerast í úrvinnslumálum en stærsti þröskuldurinn eru vottunarmálin. Brýn þörf er á rekjanleikavottun á íslenska skógrækt, vottun á borð við FSC eða PEFC. Það útheimtir kostnað sem ekki er ljóst hvaðan fjármunir eiga að koma í.

Að lokinni dagskrá var haldið í rútuferð í Laugarvatnsskóg þar sem ráðstefnugestir nutu skógarins og veitinga ásamt ljúfum söng Kórs Menntaskólans á Laugarvatni. Fagráðstefna skógræktar heldur áfram á morgun með fjölbreyttri dagskrá um ýmis skógarmálefn

Nánar hér

 

Texti: Pétur Halldórsson

Kolefnisbinding, ný markmið, nýir aðilar, vottun

Kolefnisbinding, ný markmið, nýir aðilar, vo