Eins og flestum er kunnugt, safnaðist hópur unglinga í tjaldútilegu á tjaldsvæði Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal um síðastliðna helgi. Ekki hafði verið boðað til neinnar skipulegrar hátíðar á staðnum og kom þessi mannsöfnuður umsjónarmanni tjaldsvæðisins sem og öðrum algerlega í opna skjöldu. Skógrækt ríkisins harmar að svona skyldi fara og mun allra leiða verða leitað til að slíkt endurtaki sig ekki. Skógrækt ríkisins og umsjónamaður tjaldsvæðisins vilja þakka lögreglunni fyrir skjót viðbrögð og gæslu á svæðinu. Mikil vinna hefur farið í að þrífa svæðið svo það sé boðlegt tjaldgestum og er því verki lokið. Vill Skógræktin sérstaklega þakka sumarfólki Landsvirkjunar fyrir aðstoð við þrifin.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn í Þjórsárdal. Vatnssalerni var sett upp fyrir nokkrum árum og á næstu dögum verður öðru salerni nokkru stærra bætt við. Aðgengi fyrir fatlaða verður að nýja salerninu. Skógrækt ríkisins rak tjaldstæðið í Þjórsárdal allt fram á síðasta sumar, en í sumar hefur reksturinn verið leigður út.

Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er staðsett í Sandártungu austan Sandár. Tjaldsvæðið er vel gróið og eru flatirnar aðskildar með trjágróðri sem gerir það sérstakt. Gönguleiðir eru frá tjaldsvæðinu inn í skóga Þjórsárdals og er göngubrú yfir Sandá. Það er von Skógræktarinnar og umsjónarmanns tjaldstæðisins að ,,SMS hátíð" síðustu helgar skaði ekki ímynd tjaldsvæðisins sem fjölskyldusvæðis.

Velkomin í Þjóðskógana.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi