Mynd úr fréttabréfi Skógræktarfélags Reykjavíkur
Mynd úr fréttabréfi Skógræktarfélags Reykjavíkur

Auglýst er eftir þátttakendum á jólamarkaði í Heiðmörk í Fréttabréfi Skógræktarfélags Reykjavíkur sem nýkomið er út. Þar er líka herhvöt Benedikts Erlingssonar, leikara og leikstjóra, sem brýnir landsmenn til skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Loks er minnt á Heiðmerkurþrautina sem fram fer á laugardag til styrktar félaginu.

Jólamarkaður félagsins verður haldinn við Elliðavatnsbæinn allar helgar á komandi aðventu. Handverksmarkaður er órjúfanlegur hluti markaðarins og þar geta gestir keypt ýmislegt til gjafa eða eigin nota. Sækja má um pláss til að selja varning á markaðnum fram til 26. október og nánari upplýsingar eru á vef félagsins.

Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands í haustbyrjun flutti Bendedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, þróttmikla herhvöt til Íslendinga um alvöru þeirra loftslagsbreytinga sem nú eru byrjaðar að sverfa að jarðarbúum. Þar sagði hann meðal annars:

„Enn eru einungis tvö prósent Íslands skógi vaxin. (...) kannski eigum við að þora að ímynda okkur stærri skala, stórtækari aðferðir. Kannski þurfum við þjóðarátak, samstöðu og samtakamátt sem við upplifðum 1975 á kvennafrídaginn. Einhvers konar hugrakkt alsherjarútkall, eins og viðbragð okkar við Vestmanneyjagosinu bar vitni um. Samhug og þátttöku eins og við upplifum á hverju ári um verslunarmannahelgina þegar við höldum þjóðhátíð um allt land eða í Gleðigöngum Menningarnætur.“

Erindi sitt kallaði Benedikt Predikun til trúaðra enda var hann þar á vettvangi skógræktarfólks. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur nú birt erindið á vef sínum með góðfúslegu leyfi Benedikts.  Smellið hér til að lesa.

Loks er sagt frá því í fréttabréfi Skógræktarfélags Reykjavíkur að Þríþrautarfélagið Ægir standi fyrir hinni vinsælu Heiðmerkurþraut laugardaginn 22. október og rennur allur ágóði til Skógræktarfélags Reykjavíkur. Meira um það hér.

Frétt: Pétur Halldórsson