Rætt við skógræktarstjóra og fagmálastjóra á Mbl.is

Styrkja þarf rannsóknir á áhrifum þess að bleyta aftur upp í framræstu landi sem aðgerð í baráttunni gegn loftslags­breyt­ing­um. Vakta þarf svæði sem bleytt hefur verið í svo mögulegt sé að telja fram árangurinn í loftslagsbókhaldinu. Á þetta benda þeir Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í viðtali við Mbl.is á laugardaginn var.

Til samanburðar vísa þeir til þeirra ítarlegu rannsókna sem gerðar hafi verið á bindingu koltvísýrings með skógrækt. Skógræktar­svæði séu vöktuð með þéttu neti mæliflata og gögn úr reglulegum mælingum lögð fram til skýrslugerðar IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Í máli sínu telja þeir Aðalsteinn og Þröstur að jafngóður vísindalegur grundvöllur þyrfti að vera fyrir ámóta tölum um kolefnis­búskap endurbleyttra mýra ef þær ætti að leggja með sama hætti fyrir loftslagsnefndina. Meiri rannsókna sé því þörf.

Í spjalli við Mbl.is segir Aðalsteinn meðal annars: „Það sem ég hef mest­ar áhyggj­ur af er að menn séu að fara offari í að hrapa að álykt­un­um um kosti þess að moka ofan í skurði sem hag­kvæma og auðvelda leið fyr­ir ís­lensk­ar lofts­lagsaðgerðir,“ Hann bend­ir á að litl­ar sem eng­ar ritrýnd­ar rann­sókn­ir hafi verið birt­ar hér á landi um þetta efni og leggur því áherslu á að efla verði rann­sókn­ir áður en ráðist verði í að moka ofan í skurði í stór­um stíl til að berj­ast gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Gera verði rannsóknir víðar og taka inn fjölmarga þætti sem haft geti áhrif enda muni IPCC gera kröfur um vel rökstudd gögn.

Bjarni Diðrik Sig­urðsson, pró­fess­or við Land­búnaðar­há­skóla Íslands, tekur undir það að frekari rannsókna sé þörf þótt næg­ar upp­lýs­ing­ar séu til staðar til að menn viti að bleyting framræsts lands beri árangur. Á svipuðum nótum talar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Starfsmenn Skógræktarinnar séu ekki á móti endurbleytingu mýra en þeir séu hissa á því að ekki skuli hafa verið ráðist í auknar rannsóknir áður en farið væri að einblína á endurbleytingu sem loftslagsaðgerð. Betri vitneskju þurfi t.d. um hlutföll kolefnisbindingar og metanlosunar eftir bleytingu, hversu mikið land bændur vilji láta til bleytingar og fleira. Í stað þess að ráðast í verkefni með vel þekkt áhrif svo sem rafvæðingu bílaflotans og kolefnisbindingu með skógrækt sé umræðunni drepið á dreif með hugmyndum um aðra hluti sem væri mögulega hægt að gera.

„Tím­inn og umræðan fer öll í það en ekki að gera það sem er borðleggj­andi hægt að gera. Þetta veld­ur því að stefn­an skýrist ekk­ert. Það er ekk­ert borðleggj­andi við end­ur­heimt vot­lend­is. Það er ekk­ert búið að skoða það nán­ar,“ seg­ir Þröst­ur að lokum í samtali við Mbl.is.

Meiri umfjöllun um málið

Aftur var fjallað um málið í gær á sama miðli og rætt við Bjarna Diðrik Sigurðsson prófessor, Hlyn Óskarsson vist­fræðing og Jón Guðmundsson líffræðing. Hlynur telur næga vitneskju liggja fyrir svo hefja megi bleytingu mýra og íslenskar rannsóknir séu í nægilega góðu samræmi við alþjóðlegar rannsóknir sem gerðar hafi verið í kaldtempraða beltinu. Hann seg­ir sjálfsagt mál að hefja end­ur­heimt vot­lend­is þó að hann vilji ekki rasa um ráð fram. Byggja þurfi upp innviði og reynslu í verk­efn­inu. Þá bend­ir hann á að Ísland þurfi að gera meira til að draga úr los­un í öll­um sex los­un­ar­flokk­um lofts­lags­bók­halds­ins til lofts­lags­samn­ings­ins, þar á meðal í sam­göng­um, iðnaði og úr­gangi. Allir þrír ræða þeir um að mikils undirbúnings sé þörf og ekki sé rétt að einblína á eina aðgerð gegn loftslagsvandanum.

Texti: Pétur Halldórsson