Tími til aðgerða

Landsvirkjun býður til opins fundar 22. maí í Hörpu í Reykjavík undir yfirskriftinni „Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga – Tími til aðgerða“. Fundurinn hefst með skráningu og morgunkaffi kl. 8.00 en dagskráin hefst kl. 8.30 og stendur til kl. 10.45. Umfjöllunarefni fundarins snýst um hnattrænar loftslagsbreytingar og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra.

Gróðurhúsaáhrif vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda valda loftslagsbreytingum og eru afleiðingar þeirra á jörðinni alvarlegar. Yfirborð sjávar hækkar og flóðahætta eykst, gróðurbelti færast til og vegna breytinga á sýrustigi og seltu breytast lífsskilyrði í sjó. Hnattræn hlýnun af mannavöldum ræðst af losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er því spáð að hitastig muni að óbreyttu hækka um 2-4 gráður á Celsius á næstu 100 árum en það á sér ekki hliðstæðu í loftslagssögu jarðar.

Samkvæmt Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna ber ríkjum heims að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og setja sér markmið í þeim efnum. Umhverfisráðuneytið sér um framkvæmd Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar hérlendis.

Framsögumenn fundar eru Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands, og Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Magnús Halldórsson, blaðamaður hjá Kjarnanum, stýrir fundi og pallborðsumræðum í lok fundar. Þátttakendur í umræðunum eru Halldór Björnsson, Halldór Þorgeirsson, Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu – aðalsamningamaður Íslands í loftslagsmálum.

Fundinum verður streymt beint á YouTube rás Landsvirkjunar.

Frétt af vef Landsvirkjunar