Um 70 framhaldsskólanemar frá Fjölbrautarskóla Suðurlands og Menntaskólanum að Laugarvatni mættu í Haukadal og unnu dagstund við ýmis störf í skóginum. Var ferð þessi farin í tilefni af því að fyrrnefndir skólar, Skógrækt ríkisins (S.r.), Landgræðsla ríkisins (L.r.) og Suðurlandsskógar (SLS) undirrituðu samkomulag um samstarf við skólana. Samstarfið felst í því að S.r., L.r. og SLS munu fræða nemendur á náttúrufræðibrautum um landgræðslu og skógræktarstarf og efla þannig þekkingu nemenda á málaflokkunum. Nemendur munu í tengslum við þetta koma einu sinni á ári í vinnuferð út í skóg eða á uppgræðslusvæði.

Nemendur unnu við ýmis verkefni í Haukadal þennan fyrsta verkefnisdag, m.a. að frætínslu, stígagerð, brúarsmíði og að rífa gamla byggingu á svæðinu. Í hádeginu var nemendum boðið upp á að grilla sér pylsur og brauð á báli við góðar undirtektir nemenda. Einnig reyndu nemendur með sér við að kljúfa eldivið. Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur við starf og leik.

Skógrækt ríkisins vill þakka nemendum fyrir vinnuframlagið þennan fallega haustdag.