Út er komin í Riti Mógilsár greinin Landverð og landrenta - Reiknilíkan, verðmyndun og skógrækt eftir Þorberg Hjalta Jónsson, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Í greininni er fjallað um landverð og landrentu af óræktuðu landi á Íslandi.

Greindir eru meginþættir í verð myndun og verðþróun síðastliðin fjörutíu ár. Sett er fram líkan sem áætlar verð óræktaðs lands út frá landstærð og staðsetningu. Lögð er áhersla á að líkanið sé tölfræðilega traust og gefi nægilega áreiðanlegt mat á landverði til að nýtast við mat á arðsemi skógræktar, greiningu á landnýtingarkostum og fyrir bókfært verð. Líkanið er byggt á ásettu verði en er skalað að markaðsverði með samanburði við nokkrar jarðasölur. Líkanspár eru bornar við úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta síðastliðna fjóra áratugi.

Þorbergur Hjalti kemst að þeirri niðurstöðu að landverð á Íslandi virðist samsett úr tveimur meginþáttum, staðarvirði og nýtingarvirði. Staðarvirði er verðmæti þess að eiga aðstöðu eða búa á tilteknum stað og umfram lágmarksstærð fyrir hentuga lóð er það óháð landstærð. Nýtingarvirði er verðmæti tekjustraums þeirra gæða sem landið sjálft gefur af sér. Sé landið allt jafn kostaríkt er nýtingarvirði landspildu í beinu hlutfalli við landstærð. Nýtingarvirði úthaga virðist mjög lágt og verð hvers hektara fellur skarpt með vaxandi landstærð. Þá skýrist hektaraverð af landstærð og vegalengd eftir aðalleiðum frá Reykjavík.

Að teknu tilliti til fjarlægðar, landstærðar og almennra verðbreytinga hækkaði landverð frá 1997 til 2019 að raungildi um 3,4% á ári eða liðlega tvöfaldaðist á því 22 ára tímabili sem skoðað var. Verðið virðist á þessu tíma bili fylgja í megindráttum langtímabreytingum vergrar landsframleiðslu. Úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta og landverðslíkaninu ber vel saman um stærra land en 15 ha en verð smærri skika er óvíst. Líkanið virðist því alltraust, a.m.k. yfir þeim mörkum. Vegin meðallandrenta var metin 3,1% út frá gögnum um hagagöngu hrossa og verðmati á hrossahögum.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson