Þórunn Sveinbjarnardóttir, f.h. Samfylkingarinnar.

Ræða flutt á stjórnmálafundi um skógræktarmál, Elliðavatni, 3. maí 2007.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það góða boð að fá að koma hingað í dag og tala hér f.h. Samfylkingarinnar. Ég leyfði mér að skilja eftir á borði hér fyrir aftan umhverfisstefnuna okkar sem við höfum kallað „Fagra Ísland“ og líka svolítið áróðursrit úr kjördæminu mínu, Suðvesturkjördæmi.

Mig langaði að segja ykkur að ég hef átt þess kost þessi átta ár sem ég hef setið á Alþingi, að sitja bæði í umhverfisnefnd og landbúnaðarnefnd. Þegar ég settist inn í landbúnaðarnefndina viðurkenni ég það fúslega fyrir ykkur að ég hafði litla þekkingu á því máli sem þar var verið að fjalla um en það góða við að vera í stjórnmálum er að það krefst þess að maður þarf að setja sig inn í marga hluti og vel og vera fljótur að læra og það var alveg sérstaklega lærdómsríkt fyrir mig að sitja í landbúnaðarnefndinni.

Hafandi sagt þetta langar mig að byrja á því að segja ykkur frá því sem er náttúrlega grundvallarmál í stefnu Samfylkingarinnar, að það sem við viljum vinna að er að sameina ráðuneyti og fækka þeim í stjórnarráðinu, m.a. með því að búa til atvinnuráðuneyti og síðan með því að efla umhverfisráðuneytið þannig að það geti heitið „umhverfis- og auðlindaráðuneytið“ eða eitthvað slíkt og með því myndum við auðvitað færa ákveðin verkefni á milli ráðuneyta.  Án þess að ég vilji ræða það út í hörgul hér, að þá er þetta ákveðin hugsun sem við reynum að starfa út frá.

frett_11052007_2

Annað sem við höfum gert í Samfylkingunni er að við höfum, í umhverfisstefnu okkar, lagt fram þá hugmynd að gerð verði rammaáætlun um náttúruvernd, rétt eins og unnið hefur verið að rammaáætlun í allmörg ár um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Við lítum eiginlega svo á að þetta sé hin hliðin á þeim peningi, og þegar við erum að tala um rammaáætlun um náttúruvernd erum við að ræða um að við förum yfir landið, ákveðum hvernig við ætlum að nýta það með því að vernda það, eða nýta það m.þ.a. virkja á því, eða nytja það til einhvers annars, svo sem til skógræktar. Og auðvitað fer þetta sums staðar saman og sums staðar ekki. Aðalmálið er, að í vel stæðu og vel upplýstu samfélagi, eins og Ísland er, að þá skiptir það máli að við setjum okkur raunhæf markmið, að við búum okkur til framkvæmdaráætlun sem við vinnum eftir, fjármögnum þær og ástundum góð vinnubrögð. Þessvegna viljum við, í Samfylkingunni, búa til ramma utan um það starf sem þarf að fara fram, hvort heldur það er við skógrækt eða við aðrar landnytjar. Þetta er þá þannig einsog fram kom í þessum frábæru og mjög svo upplýsandi inngangserindum, að það eru auðvitað til margar tegundir af skógrækt og fólk er að ástunda skógrækt af mörgum ólíkum ástæðum, þó að ég efist ekki um að það fái allir mjög mikið út úr því þá er það ekki það sama og að vera í frístundaskógrækt og að vera í nytjaskógrækt. Það eru bara ólíkir hlutir þar á ferðinni. Og við þurfum þá bara að ganga til verks með það í huga og það er kannski af því ég er í eðli mínu frekar stjórnsöm kona, að mér finnst að fólk eigi ekki að geta gengið um landið, jafnvel þótt það sé einkaeignarland, eins og því sýnist. Ég held að við verðum að hafa heildarmynd á því, hvernig við viljum nýta okkar dýrmæta land, Ísland er vissulega stór eyja, en það er ekki mjög mikið láglendi á henni miðað við stærð, og það þarf að hugsa það mjög vel, hvernig við hyggjumst gera þetta.

Það er það fyrsta sem ég vildi segja við ykkur. Annað sem mér finnst líka skipta máli, og ég man vel eftir þeirri umræðu í þinginu sem var fyrir u.þ.b. ári síðan, þegar ráðherrann sem nú er farinn, var að flytja frumvarp til laga um sameiningu lagabálksins um landshlutaverkefnin í skógrækt. Mig minnir að þetta heiti nú lög um landshlutabundna skógrækt eða eitthvað slíkt. Þá vorum við svo sem öll sammála í þinginu um að þetta væri gott skref og rétt skref að taka, hins vegar fannst okkur og ég leyfði mér að taka undir það, að þetta væri svolítið mikil stjórnsýsla, þetta væri svolítið flókið. Við virðumst vera svolítið dugleg í því þessi 300 þúsund manna þjóð að koma okkur upp flóknum kerfum. Við leyfðum okkur að gagnrýna það að það væri helst til mikið vald í þessum efnum falið innan ráðuneytisins og stýrt beint þaðan, og við vildum fá fleiri inn í stjórnir landshlutabundinna verkefna, m.a. fleiri sem koma úr öðrum áttum, t.d. sérfræðinga frá Náttúrufræðistofnun eða annars staðar frá.

Þannig að það er kannski ekki mjög djúpstæður ágreiningur held ég á milli stjórnmálaflokka um gildi skógræktarinnar. Ég held  við séum ekki að deila um gildi skógræktarinnar sem slíkrar. Og mig langar til að taka undir það sem ég held að Arnór hafi sagt hér áðan, af því það er mikil umræða um skógrækt og kolefnisbindingu, auðvitað er það mjög mikilvægt umræðuefni, en kolefnisbinding er að mörgu leyti bónus, ofan á allt hitt jákvæða sem skógrækt getur veitt okkur. Og annað sem mér finnst ekki síður mikilvægt að tala um í þessu sambandi, að skógrækt er líka félagsleg starfsemi. Sjö þúsund og fimm hundruð manns eru félagar í félögum svo sem hjá Hólmfríði í Hafnarfirði [Skógræktarfélagi Hafnfirðinga] og er að reka mjög merkilegt og mikið starf sem veitir fólki lífsfyllingu og yndi. Og það eru allir þessir þættir sem koma saman í skógræktinni, eins og þið þekkið auðvitað mikið betur en ég, og mér finnst þið megið horfa svolítið á félagslegu hliðina.

Og þá skal ég hætta að tala en ég hefði getað talað miklu lengur. Þakka ykkur fyrir.