Ungur skógtæknir fær viðurkenningu fyrir ritgerð um starfsnám á Íslandi

Danskur skógtækninemi sem tók hluta af starfsnámi sínu á Íslandi hlaut nýlega önnur verðlaun í ritgerðasamkeppni um námsdvöl í útlöndum. Í ritgerðinni lýsir hann því með skáldlegum hætti hvernig það varð úr að hann fór til Íslands og hvernig dvölin færði honum heim sanninn um að hann væri á réttri hillu í þessu fagi og hefði hlutverki að gegna í þágu náttúrunnar.

Fyrsta hluta skóg- og náttúrutækninámsins í Danmörku er hægt að taka í hvaða verkmenntaskóla sem er þar í landi. Annað stigið er í boði í ákveðnum skólum en til að hljóta full réttindi sem skóg- og náttúrutæknir þurfa nemendur að ljúka einu ári til viðbótar skógarskólann í Fredensborg sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla. Hluti námsins er starfsnám og á undanförnum árum hefur farið vaxandi að danskir nemendur í þessu fagi taki þann hluta í útlöndum, meðal annars á Íslandi.

Danska menntamálaráðuneytið hefur leitast við að vekja athygli námsfólks á þeim möguleika að taka hluta af námi sínu í útlöndum og nú eru á hverju hausti veittar viðurkenningar nemendum sem þetta hafa gert og þótt skara fram úr. Efnt er til ritgerða- og myndbandasamkeppni meðal nemenda og veittar viðurkenningar fyrir umfjöllun nemendanna um námsdvöl sína á erlendri grundu. Á liðnu hausti hlaut önnur verðlaun í ritgerðarsamkeppninni ungur skógtæknir sem hafði verið í starfsnámi hjá Skógrækt ríkisins á Suðurlandi. Sá heitir  Marcus Baldrian Nørskov og hefur greinilega ekki aðeins hæfileika á skógræktarsviðinu heldur einnig frjóa frásagnargáfu og hæfileika á ritvellinum. Ritgerð hans birtist í síðasta tölublaði danska skógtímaritsins Skoven og er skemmtileg og hvetjandi lesning.Í greininni segir Marcus frá því á skemmtilegan hátt hvernig leið hans lá til Íslands og hvernig dvölin hér og störfin í skóginum eyddu öllum efa í huga hans um að þetta væri sú starfsgrein sem hann vildi helga sig. Greinin gæti verið hvatning ungu fólki á Íslandi sem hefur yndi af náttúrunni og útivinnu og veltir fyrir sér framtíð sinni. Nám í skógtækni er í boði við skógar- og náttúrubraut Landbúnaðarháskóla Íslands.

Texti: Pétur Halldórsson