Er hrein unun að fylgjast með fjörinu í gróðri og tilþrifum í trjám um þessar mundir. Minnir helst á lýsingu Sturlu Þórðarsonar á árinu 1217, en þá "var ár mikið í landinu. Sumar það var svo gott að það var víða um landið að aldinviðurinn bar tvennan ávöxt og útifuglarnir urpu tvisvar." Og það skemtilega er, að nú kemur blíðviðrið í góðan stað niður. Áhugi og elja landsmanna við hvers konar ræktunarstörf við erfið skilyrði á undanförnum áratugum hefur borið ríkulegan ávöxt. Þolgæði og þrjóska hafa fengið umbun. Og þegar veröldin lætur svo blítt sem þetta vor, eru hvarvetna myndarlegir gróðurreitir og garðar, skjólbelti og skógarsvæði sem taka feginsamlega á móti. Vex hugur þá vel gengur, og nú er upplagt að taka sér tak og rækta, planta og hlúa að gróðri og náttúru.

En skrautbúin tré og skógarlundir gera meira en að gleðja augað í góðsprettutíð. Þau mega vera okkur til áminningar um aðra óskylda þætti. Stæðileg tré með stolta krónu þrífast ekki og dafna nema festing og rótarkerfi, sem þó enginn sér, séu öflug og virk. Blöðin sem teygja sig til himins og sækja afl sitt til sólarinnar eru önnur forsenda fyrir vexti og viðgangi, en rótarkerfið hin.

Ávarpið í heild má finna hér , á vefsíðu Forsætisráðuneytisins

Myndin er fengin "að láni" úr 15. maí hefti The Economist