Dr. Rajendra K. Pahcauri, formaður loftslagsnefndar SÞ
Dr. Rajendra K. Pahcauri, formaður loftslagsnefndar SÞ

Táknrænt um þátt skóga í baráttunni, segir yfirmaður norskra skógareigenda

Í dag, þriðjudaginn 12. ágúst, gróðursetur formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Dr. Rajendra K. Pachauri, tré í Arendal syðst í Noregi með aðstoð norska umhverfisráðherrans, Tine Sundtoft. Gróðursetningin er táknræn athöfn til að undirstrika mikilvægt hlutverk skóga í loftslagsmálunum.

Dr. Rajendra K. Pachauri hefur verið formaður loftslagsnefndar SÞ frá árinu 2002. Hann er iðnaðarverkfræðingur og hagfræðingur að mennt og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín að orku- og loftslagsmálum.

Á vef samtaka norskra skógareigenda, Norges Skogeierforbund, segist yfirmaður samtakanna, Erik Lahnstein, fagna mjög þessum viðburði enda sé ómögulegt að ráða við loftslagsvandann öðruvísi en með aukinni nýtingu á skógarafurðum. Ekki sé heldur mögulegt að fullnægja skuldbindingum Noregs í loftslagsmálum nema með því bæði að rækta meiri skóg og höggva meiri skóg. Nú þurfi heimurinn á að halda framleiðsluvörum úr grænu kolefni í stað þess að vörur séu framleiddar úr svörtu kolefni. Allt sem hægt er að framleiða úr olíu sé mögulegt að framleiða úr afurðum trjánna. Skógurinn verði ómetanleg uppspretta virðisauka í samfélagi framtíðarinnar sem muni einkennast af lítilli losun koltvísýrings. Lahnstein segir að Noregur verði að grípa tækifærið og þróa arðbæran iðnað á grunni græns kolefnis úr norskum skógum. Hann vonast til að sem flestir verði viðstaddir viðburðinn sem verður í Arendal syðst í Noregi í dag kl. 12.20 að norskum tíma, 10.20 að íslenskum tíma. Gestir fá að smakka grillað dádýr og gefins greniplöntu til að setja niður á góðum stað.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Vefur samtaka norskra skógareigenda