Skilti þetta blasir við farþegum skemmtiferðaskipa sem koma til Akureyrar í sumar. Vonandi bíta sem …
Skilti þetta blasir við farþegum skemmtiferðaskipa sem koma til Akureyrar í sumar. Vonandi bíta sem flestir á agnið og slá tvær flugur í einu höggi með framlagi sínu, binda koltvísýring vegna ferðalagsins og stuðla að útbreiðslu skóglendis á Íslandi. Mynd: Hafnasamlag Norðurlands.

En byrjar þó sem siglingaskógur

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kemur til Akureyrar laugardaginn 13. maí. Far­þeg­ar þess verða hinir fyrstu sem gefst kostur á að kaupa tré til að kolefnisjafna ferðalag sitt til Akureyrar.

Þetta er hluti af verkefni sem gengið hefur undir heitinu „flugskógurinn“ og er sam­starfs­verkefni Vistorku, Akureyrarbæjar og Skógræktarfélags Eyfirðinga. Það er liður í þeirri viðleitni bæjarins að kolefnis­jafna allar athafnir bæjarbúa og starfsemi í bænum. Bærinn hefur farið ýmsar leiðir í þá átt, hús eru hituð upp og lýst með grænu rafmagni og jarðhitavatni, lífrænt sorp er skilið frá öðru sorpi og jarðgert, fituleifum og notaðri matarolíu er safnað og búinn til úr því lífdísill, metani úr gömlum öskuhaugum notað á bíla bæjarfélagsins og selt á almennum markaði, verið er að byggja upp innviði fyrir rafbíla og fleira mætti nefna.

Ekki er hins vegar alveg komið að orkuskiptum í flugi og siglingum og þar til af því verður þarf að leita annarra leiða. Þá er nærtækast að binda með skógrækt koltvísýringinn sem losnar frá flugvélum og skipum. Á næstunni gefst far­þeg­um í flugi til og frá Akureyri kostur á að greiða fyrir þau tré sem þarf að gróðursetja til að kolefnisjafna ferðir þeirra og fyrirtæki sýna því áhuga að kolefnisjafna flugferðir á sínum vegum með sama hætti.

Höfnin á Akureyri hefur líka ákveðið að taka þátt í þessu og greiðir fyrir tvö þúsund tré í sumar vegna þeirra skemmti­ferðaskipa sem hafa viðdvöl í bænum. Auk þess býðst farþegum skipanna að greiða fyrir sinn hlut í losuninni. Skóg­ræktarfélag Eyfirðinga sér um gróðursetningu trjánna í reit sem tekinn hefur verið frá við gömlu sorphaugana á Gler­árdal sem nú eru aflagðir. Því má segja að „flugskógurinn" taki flugið sem „siglingaskógur“. Hvert tré kostar tvær evrur eða um 230 krónur.

Texti: Pétur Halldórsson