Losun frá landbúnaði í Fljótsdalshreppi eftir uppsprettum. Tafla: Lárus Heiðarsson.
Losun frá landbúnaði í Fljótsdalshreppi eftir uppsprettum. Tafla: Lárus Heiðarsson.

Þar er bundið með ræktun meira en nemur allri losun

Eftir fréttir í fjölmiðlum og hér á vef Skógræktarinnar um að Akureyrarkaupstaður stefndi að því að verða fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið var bent á að samkvæmt skýrslu sem kom út árið 2009 væri nú þegar til á Íslandi sveitarfélag sem hefði náð þessari eftirsóknarverðu stöðu. Í Fljótsdalshreppi binst mörg hundruð tonnum meira af kolefni en losað er út í andrúmsloftið. Mestu munar um skógræktina.

Skýrsluna skrifaði Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, og nefnist hún Samantekt á árlegri kolefnisbindingu og losun í Fljótsdalshreppi. Fram kemur í inngangi að í skýrslu um Staðardagskrá 21 fyrir Fljótsdalshrepp sem kynnt var íbúum í febrúar 2005 var nefnt að gaman væri að taka saman áðurnefndar tölur til að sjá hvort íbúar hreppsins væru að losa eða binda kolefni. Til verkefnisins fékkst styrkur úr verkefna- og rannsóknasjóði Fljótsdalshrepps og frá Landsbanka Íslands.

Lárus ræðir í skýrslunni um það markmið sem Íslendingar hafi sett sér að  minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50% til 75% fram til 2050, miðað við árið 1990. Tvær leiðir virðist helst vera færar til þess að koma á jafnvægi í kolefnisbúskap jarðarinnar, annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og hins vegar að binda kolefni í gróðri með skógrækt eða landgræðslu. Nauðsynlegt sé að leggja áherslu á hvort tveggja svo árangur náist.

Nýgrisjaður stafafuru- og lerkiskógur. Mynd: Pétur Halldórsson.">

Miðað við þær tölur sem lagðar voru til grundvallar skýrslunni árið 2009 er stærsti einstaki losunarvaldurinn í Fljótsdalshreppi kolefnislosun (C) vegna framræslu, alls 597 tonn sem samsvarar um 2.200 tonnum koltvíoxíðs (CO2). Þetta nemur 36% af heildarlosuninni. Við framræslu losnar einnig hláturgas (N2O) sem samsvarar 476 tonnum koltvíoxíðs. Næststærsti losunarvaldurinn er CO2-losun frá vinnuvélum, 1.399 tonn og önnur losun er metanlosun (CH4) vegna vambagerjunar, rúmlega 891 tonn koltvíoxíðs, losun frá einkabílum, 495 tonn koltvíoxíðs, losun hláturgass (N2O) vegna áburðardreifingar, tæplega 1,7 tonn eða 517 tonn kotvíoxíðs, losun hláturgass (N2O) vegna geymslu og dreifingar búfjáráburðar er 482 kíló eða 149 tonn koltvíoxíðs og vegna geymslu og dreifingar losnar einnig metan (CH4), tæplega 1,3 tonn sem svarar til 26 tonna koltvíoxíðs.

Á móti losuninni reiknast svo binding með landgræðslu og skógrækt sem er mikil í Fljótsdalshreppi, samtals 6.938 tonn. Þar af bundust árlega um 188 tonn með landgræðslu og 6.750 tonn með skógrækt samkvæmt fyrirliggjandi gögnum árið 2009. Niðurstaðan var því sú að Fljótsdælingar byndu 794 tonn af koldíoxíði á ári umfram það sem að þeir losuðu. Að meðaltali nam það 9,1 tonni á íbúa. Aðalástæðan fyrir þessari miklu bindingu er þó ekki sú að Fljótsdælingar losi með athöfnum sínum minna af gróðurhúsalofttegundum en aðrir. Sköpum skiptir sú mikla kolefnisbinding sem á sér stað í skógum sveitarinnar.

Skýrslu Lárusar Heiðarssonar er að finna á vef Fljótsdalshrepps. Auk þess að gefa mynd af kolefnisbúskap sveitarfélagsins er hún fróðleg lesning um gróðurhúsalofttegundir og loftslagsmál almennt. Af henni má læra margt um áhrif af athöfnum okkar mannanna en líka um hversu öflugt tæki skógarnir eru í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Texti: Pétur Halldórsson