Tré hafa margvísleg jákvæð áhrif á þéttbýlisumhverfi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Tré hafa margvísleg jákvæð áhrif á þéttbýlisumhverfi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Auka þarf skógrækt í landi Reykjavíkurborgar. Þetta er álit borgarhönnuðar sem talar á málþingi um loftslagsmál á Kjarvalsstöðum í Reykjavík í kvöld með yfirskriftinni „Loftslagsmál - er náttúran svarið?

Málþingið er hluti af fundaröð umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar sem kallast Liggur okkur lífið á. Meðal þeirra sem taka þátt í umræðum á fundinum er Gísli Rafn Guðmundsson borgarhönnuður. Hann segir í spjalli á Vísi að skoðaðir verði sérstaklega þeir náttúrulegu ferlar sem nota má til að snúa við þeirri þróun sem mennirnir hafa valdið.

Á fundinum taka líka til máls Snorri Sigurðsson líffræðingur og Íris Þórarinsdóttir, verkfræðingur hjá Veitum. Íris segir frá því hvernig unnið hefur verið að því hjá Veitum að beita líffræðilegum ferlum til að hreinsa og nýta afrennslisvatn af húsum og götum.

Fram kemur í viðtali Vísis við Gísla að fundurinn í kvöld fjalli í raun og veru um það hvernig við getum komið náttúrunni aftur inn í borgina sem mest. Kolefnisbinding með skógrækt sé einn af þeim líffræðilegu ferlum sem nota þurfi og að náttúran sé svarið við vandanum sem að steðjar. Fækkun grænna svæða í borginni sé að vissu leyti andstæð þeirri viðleitni en á móti komi að með þéttingu byggðar sé minni þörf fyrir að brjóta nýtt land undir byggð í borgarjöðrunum. Þessir hlutir þurfi að vera í jafnvægi og mjög mikilvægt að þau svæði sem eftir verða við þéttingu byggðar séu vönduð og vel úr garði gerð. Mörg grænu svæðin séu nú eins og hús sem eigi eftir að innrétta. Efla þurfi innviði garðanna til þess að þeir geti notið sín betur og verið áhugaverðari.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir þessari fundaröð ásamt Líf Magneudóttur formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni skipulags- og samgönguráðs. Á fundunum eru loftslagsmál skoðuð og rædd út frá ýmsum sjónarhornum. Á fundinum í kvöld verður spurt spurninga eins og:

  • Hver eru tengsl náttúruverndar og loftslagsmála?
  • Hvað eru náttúrulausnir og af hverju skipta þær máli í loftslagsumræðunni?
  • Hvernig geta borgir verið náttúruvænni?
  • Hvernig nýtast aðgerðir í loftslagsmálum verndun líffræðilegrar fjölbreytni?
  • Hver eru áform Reykjavíkurborgar hvað ofanvatnslausnir varðar, vistvænt byggðaskipulag, græna netið og kolefnisbindingu?
  • Ber okkur skylda til að vernda lífríki jarðar?
  • Skiptir það einungis máli vegna velferðar mannkyns?
  • Hverjir eru hagsmunir náttúrunnar?

Fundurinn í kvöld, þriðjudaginn 23. apríl, verður haldinn á Kjarvalsstöðum klukkan átta og er öllum frjáls aðgangur.

Texti: Pétur Halldórsson