Fjórfalt fleiri skordýr fylgja innfluttum jólatrjám en þeim íslensku. Flestar pöddurnar eru algjörlega skaðlausar fólki en gætu ógnað íslensku vistkerfi.

Fæstir hugsa út í það, þegar þeir velja sér lifandi jólatré, að þeir eru ekki bara að kaupa tréð heldur líka allt smádýralífið sem trénu fylgir. Skógrækt ríkisins bar í fyrra saman pöddulíf á íslenskum og innfluttum jólatrjám og svipuð rannsókn er nú í gangi í Háskólanum á Akureyri. 

Brynhildur Bjarnadóttir, lektor í náttúruvísindum við Háskólann á Akureyri, segir að það séu allt að fjórfalt fleiri smádýr sem koma inn í stofu fólks með innfluttum jólatrjám. „Það sem gerist þegar tré kemur inn í hitann og birtuna inni í húsi þá lifnar þetta smádýralíf við sem er annars í dvala yfir veturinn,“ segir hún.

Brynhildur segir að dýrin, sem sjást ekki endilega með berum augum, séu ekki skaðleg fólki. Hins vegar geti þau skaðað íslenska náttúru berist þau út í vistkerfið. Bendir Brynhildur á að reglulega komi upp sjúkdómar í trjám erlendis, eins og nýlegt dæmi um átusvepp, sem farið hefur illa með þin á Norðurlöndunum, sannar. Slíkir sjúkdómar geti auðveldlega borist á milli landa. Nefnd á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins endurskoðar nú reglugerð um innflutning á plöntum og plöntuafurðum og heyra innfluttu jólatrén  þar undir.

„Það er alveg umhugsunarefni hvort við viljum vera að taka þessa áhættu að flytja inn þessar trjátegundir með það kannski í huga að við gætum mögulega verið að færa fleira inn til landsins heldur en tréið sjálft þannig að þetta er algjörlega umhugsunarefni og þarf að skoðast á lagagrundvelli og með tilliti til ýmissa sjónarmiða,“ segir Brynhildur.


Frétt: RÚV
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir