Vaglaskógur fangar snjóinn og heldur honum vel fyrir skíðafólkið. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Vaglaskógur fangar snjóinn og heldur honum vel fyrir skíðafólkið. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Ungmennafélagið Bjarmi í Þingeyjarsveit efnir til útivistardags í Vaglaskógi laugardaginn 30. mars í samstarfi við Skógræktina. Keppt verður í snjóskúlptúragerð og skíðasprettgöngu, gestir fá að reyna sig í skíðaskotfimi og þjálfari veitir leiðsögn í skíðagöngu ásamt fleiru.

Félagar í Bjarma hafa í tilraunaskyni troðið skíðagönguspor í Vaglaskógi nokkrum sinnum undanfarnar vikur. Vaglaskógur er snjóakista og þar er að jafnaði skíðagöngufæri stóran hluta vetrar og jafnvel fram á vor. Þessi tækifæri vill Bjarmafólk notfæra sér og sömuleiðis hefur Skógræktin áhuga á því að fólk nýti sér útivistarmöguleika í Vaglaskógi allan ársins hring, eins og í öllum þjóðskógum landsins.

Á útivistardeginum verður hægt að ...

  • taka þátt í liðakeppni í snjóskúlptúragerð, skráning á staðnum, verðlaun fyrir flottasta skúlptúrinn (takið með ykkur hjálpargögn s.s. fötur og skóflur)
  • prófa skíðaskotfimi undir leiðsögn (búnaður á staðnum)
  • taka þátt í 100 metra skíðasprettgöngu, verðlaun fyrir 1. sæti og titillinn „skíðasprettgöngumeistari Bjarma“
  • ganga á gönguskíðum eftir sporuðum brautum um skóginn
  • ganga og leika í skóginum eins og hver vill (hafið með ykkur sleða, þotu og önnur leiktæki)

Þátttökugjald er 1.000 krónur fyrir fullorðna, ókeypis fyrir börn 17 ára og yngri. Hafið með ykkur nesti, vini, skíði, leiktæki, sólgleraugu og góða skapið. Nánari upplýsingar veitir Birna í síma 848 3547.

Sjá nánar á Facebook-síðunni Skíðagöngubrautir í Vaglaskógi.