Í vikunni var haldinn fjölmennur fundur með grunnskólakennurum í Reykjavík þar sem kennarar frá 17 skólum mættu, auk fullrúa frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar og Lesið í skóginn verkefninu.

Á fundinum kynnti verkefnisstjóri Lesið í skóginn, Ólafur Oddsson, niðurstöður könnunarinnar um notkun grenndarskóga í skólastarfi sem gerð var í fyrravetur og fjallaði ítarlega um nytjaáætlanir og kortagrunna fyrir grenndarskóga og sérstaklega hvaða upplýsingar sem þar liggja geta nýst í skólastarfi.

Anna Sigríður Skúladóttir, verkefnisstjóri útináms í Ártúnsskóla, lýsti þróunarsamstarfi Lesið í skóginn og skólans um notkun nytjaáætlanarinnar og hvernig starfsfólk skólans var þjálfað í notkun hennar. Hún sagði einnig frá því hvernig grenndarskógurinn er notaður í samþættu útinámi sem tengt er öllum námsgreinum og skólastigum.

Einar Kristján Hilmarsson, smíðakennari Hlíðarskóla, kynnti "skógarval" nemenda í 9. og 10. bekk sem er samstarfsverkefni hans og Helgu náttúrufræðikennara. Stór hluti námsins fer fram í grenndarskógi skólans í Öskjuhlíð þar sem nemendur vinna að fjölbreyttum verkefnum á vettvangi. Þetta er fjórða árið sem boðið hefur verið upp á skógarvalið og hefur áhuginn aldrei verið meiri en nú. Í lok fundar var ákveðið að hittast hjá Einari Krisjáni og Helgu og fá að heyra meira um þetta áhugaverða verkefni og ræða önnur símenntunarmál er varðar skógartengt útinám og grenndarskóga.

Í lokin var auk þess rætt um leiðir til að styðja betur við einstaka kennara og skóla er varðar vinnu með nemendum í grenndarkógi, uppbyggingu á aðstöðu, útvegun nýrra grenndarskóga og leiðir til að finna efni til nota í skólastarfi.

Texti og mynd: Ólafur Oddsson