Frá upphafi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands 2022. Formaður félagsins, Jónatan Garðarsson, í ræðu…
Frá upphafi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands 2022. Formaður félagsins, Jónatan Garðarsson, í ræðustóli. Ljósmynd af Facebook-síðu félagsins

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hófst í morgun í Mosfellsbæ. Í erindi sínu við upphaf fundarins benti skógræktarstjóri á að nú væri útlit fyrir metár í söfnun á trjáfræi. Hann talaði um vaxandi skógrækt og mikilvægi þess að taka ábyrgð í loftslagsmálum. Aðalfundurinn stendur fram á sunnudag.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er gestgjafi fundarins þetta árið og er fundurinn vel sóttur. Hann er nú haldinn í fyrsta sinn með hefðbundnu sniði frá því fyrir veirufaraldurinn og óþreyjan því orðin nokkuð mikil hjá skógræktarfólki að koma saman, fræðast, ganga saman í skógi og njóta alls þess sem skógarmannasamkomur gefa.

Fundurinn í morgun hófst á ávörpum forystufólks. Fyrstur talaði Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, þá Björn Traustason, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og loks Regína Ásvaldsdóttir, jarstjóri Mosfellsbæjar. Í erindi sínu talaði skógræktarstjóri meðal annars um bjartari tíma í skógrækt hérlendis þar sem gróðursetning hefur nú tvöfaldast. Hún er nú komin í sex milljónir trjáplantna á ári og fer áfram vaxandi. Hann benti líka á að nú væri útlit fyrir metuppskeru á fræi trjátegunda í haust, mikið birkifræ víða og sömuleiðis fræ annarra trjátegunda. Þar geta skógræktarfélög lagt hönd á plóginn við að safna fræi til aukinnar ræktunar.

Þröstur kom inn á það mikla verkefni að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Það væri viðfangsefni sem brýnt væri að allir tækju sína ábyrgð á. „Við gerum það, skógræktargeirinn, og okkar hlutverk er að rækta meiri skóg til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu. Það er vel viðurkennd aðgerð og okkur tekst vel til,“ sagði Þröstur meðal annars og spurði hvaða aðgerðir það væru sem hefðu jafnmargt jákvætt í för með sér fyrir umhverfið og skógrækt. Hann brýndi stjórnvöld og sveitarfélög til að taka sína ábyrgð og liðka fyrir slíkum verkefnum.

Loks nefndi Þröstur að þetta væri væntanlega í síðasta sinn sem hann ávarpaði aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem skógræktarstjóri því nú liði að starfslokum.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands heldur áfram í Hlégarði með hefðbundnum aðalfundarstörfum. Á fyrsta deginum fær Mosfellsbær góðan hluta athyglinnar með kynningu á sveitarfélaginu, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar og skógum í sveitarfélaginu, meðal annars með skoðunarferð. Á morgun, laugardag verða m.a. fræðsluerindi á dagskránni og hátíðardagskrá annað kvöld en í skoðunarferð dagsins verður haldið á Þingvöll þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gróðursetur tré í Vinalundi. Fundinum lýkur svo um hádegisbil á sunnudag með afgreiðslu reikninga og tillagna, almennum umræðum og sjórnarkosningum.

Texti: Pétur Halldórsson