Fréttablaðið fjallar um jólatré

„Við viljum klæða landið skógi. Af hverju tré sem við seljum um jólin plöntum við öðrum fimm trjám. Í því felst virðisaukinn fyrir okkur." Þetta segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, í umfjöllun Fréttablaðsins um jólatré. Framkvæmdastjóri hjá Húsasmiðjunni segir ákjósanlegra ef fyrirtækið gæti verið með hærra hlutfall innlendra trjáa í jólatrjáasölu sinni.

Fram kemur að Ísland gæti eftir tvo áratugi framleitt nægilega mörg jólatré til að anna eftirspurn hér á landi að mati skógfræðings. Innlend tré séu umhverfisvænni og stuðli að minnkandi vistspori. Tæplega 30 þúsund tré séu flutt inn til landsins í ár.

Sveinn Arnarson blaðamaður skrifar um málið og grein hans er á þessa leið:

Af þeim rúmlega 35 þúsund lifandi jólatrjám sem Íslendingar skreyta í stofum sínum um jólin eru aðeins um sex til átta þúsund ræktuð hér á landi. Hinn hlutinn, eða um 80 prósent lifandi jólatrjáa, er ræktaður erlendis.

Else Möller, skógfræðingur á Austurlandi, segir innlenda framleiðslu jólatrjáa í raun ekki til. Þau innlendu jólatré sem koma á markað séu úr grisjun skóga. Erlendis, líkt og í Danmörku, sé um iðnað að ræða þar sem framleidd eru 10 milljón jólatré árlega. Hún segir mögulegt að Íslendingar geti annað eftirspurn hér á landi án innflutnings.

„Við getum séð fyrir okkur að eftir 15 til 20 ár verði framleiðsla okkar á þeim stað að anna eftirspurn. Það er mögulegt. Hins vegar þarf þá að vinna þessa vinnu markvisst. Íslensk framleiðsla er auðvitað mun vistvænni en að flytja inn jólatré í miklu magni,“ segir Else.

Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar, segir aðeins um 15 prósent jólatrjáa þeirra vera framleidd á Íslandi.

„Það er þá mest stafafura sem við fáum. Það er ekki hægt að komast í aðrar tegundir hér á landi með góðu móti. Hins vegar væri það miklu ákjósanlegra fyrir okkur ef við gætum verið með hærra hlutfall innlendrar framleiðslu hjá okkur,“ segir Kristinn.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur upp á síðkastið selt um fjögur til fimm hundruð jólatré á hverju ári og er það mest stafafura. Jónatan Garðarsson, formaður skógræktarfélagsins, segir ágóða af sölunni fara í áframhaldandi skógrækt. „Við viljum klæða landið skógi. Af hverju tré sem við seljum um jólin plöntum við öðrum fimm trjám. í því felst virðisaukinn fyrir okkur.“

Else segir verkkunnáttuna hér á landi ekki til staðar eins og staðan er núna. „Í Danmörku til dæmis er starfsfólkið á ökrunum nánast allt frá Austur-Evrópu og þar eru tré klippt til að ná ákjósanlegri lögun. Þessi handavinna er eitthvað sem við þekkjum lítið til og þurfum því að tileinka okkur,“ segir Else.