Fjárhús úr gegnheilu timbri hjá Arnfinn Auestad, bónda í Ålgård, reist á þessu ári af Rogaland Massi…
Fjárhús úr gegnheilu timbri hjá Arnfinn Auestad, bónda í Ålgård, reist á þessu ári af Rogaland Massivtre AS

Betri vist fyrir fólk og dýr, náttúrleg hljóðeinangrun og loftræsting

Fyrirtækið Rogaland Massivtre AS reisir nú fjárhús í Suldal á Rogalandi í suðvestanverðum Noregi. Það væri vart í frásögur færandi nema fyrir það að byggingin er reist úr gegnheilum viði sem kemur úr níu sögunarmyllum á Rogalandi. Bóndinn sem lætur reisa húsið, Arve Aarhus, segir að með þessu móti fái hann þægilegra hús fyrir bæði skepnur og fólkið sem sinnir gegningum, góða hljóðeinangrun og náttúrlega loftræstingu.

Roglendingar eru þekktir fyrir að komast þangað sem þeir ætla sér. Fyrir nokkrum árum stofnuðu þeir fyrirtækið Rogaland Massivtre AS og að baki því standa níu „litlar“ sögunarmyllur í fylkinu. Megintilgangurinn með stofnun fyrirtækisins var að útvega allt sem þyrfti til að reisa útihús úr gegnheilum viði. Áhersla er lögð á að hráefnið sé úr skógi sem ræktaður hefur verið í héraðinu en einnig að bæði gæði og verð sé samkeppnishæft við aðrar gerðir útihúsa á markaðnum.

Samstarf níu sögunarmyllna

Fjárhúsin í Suldal sem byrjað var að reisa í byrjun mánaðarins eru þau þriðju sem reist eru á vegum Rogaland Massivtre. Einn helsti forystumaður fyrirtækisins er Svein Kjetil Rønnevik. Hann á sögunarmylluna Jørpeland Sag sem er ein þeirra níu myllna sem standa að baki Rogaland Massivtre. Allar þessar sögunarmyllur eru rótgróin fyrirtæki sem þjóna markaðnum hvert á sínu svæði. Þetta gefur sveigjanleika og samstarfið gerir kleift að útvega gegnheilan við fljótt og vel til að koma upp heilum gripahúsum úr slíku efni. Svein Kjetil Rønnevik hefur mikla trú á þessari starfsemi en segir að góða skipulagningu hafi þurft til að veita mætti faglega þjónustu. Uppsetning húsanna geti annað hvort verið á höndum húsbyggjandans sjálfs með hjálp fagmanna eða að iðnaðarmenn séu ráðnir til að sjá alveg um verkið. Hann bendir líka á að næstum allar viðartegundir henti í þessa framleiðslu og nefnir bæði rauðgreni, sitkagreni, þöll og þin. Nýlega hefur félagið látið þróa tæki sem neglir sjálfkrafa saman byggingahluti úr gegnheilum viði. Fyrsta byggingin sem það verður notað við eru fjárhúsin í Suldal.


„Rollsinn“ í útihúsum

Húsbyggjandinn og bóndinn Arve Aarhus í Suldal leggur áherslu á að þessi aðferð, að nota gegnheilan við, geri að verkum að inniloftið í húsinu verði betra en í hefðbundnum útihúsum. „Þetta gefur betri hljóðvist, timbrið getur tekið í sig mikinn raka úr loftinu og veitt honum burt þannig að náttúrleg loftræsting verður meiri,“ segir hann. Og þar sem bæði verð og byggingarhraði sé viðunandi sé valið auðvelt. Heildarflatarmál þessara fjárhúsa er 500 m2 og reiknað er með að hálfan annan mánuð taki að reisa þau. Og þetta þarf að standast því féð þarf að komast á hús fyrir veturinn. Svein Kjetil Rønnevik segir að bygging sem þessi úr gegnheilum viði sé þægilegt húsnæði fyrir bæði fólk og fénað og slíkt byggingarefni taki líka flestu öðru fram í innviði og innréttingar í útihúsum. Hann líkir timbrinu við fræga breska eðalvagna og kallar útihús sem þessi „Rollsinn“ í útihúsum.

Þörf fyrir 140 km af nýjum skógarvegum á Rogalandi næstu 20 árin

Rétt eins og í flestum öðrum fylkjum við strendur Noregs hefur mikill skógur verið ræktaður á Rogalandi, aðallega með rauðgreni og sitkagreni. Í þessum skógum er víða eftir að koma upp nauðsynlegum mannvirkjum eins og vél- og bílfærum vegum svo nýta megi auðlindina með hagkvæmum hætti. Þetta getur skipt sköpum um afkomuna í greininni. Sögunarmyllurnar níu sem standa að Rogaland Massivtre þurfa að hafa aðgang að nægu heimafengnu timbri og aðgangurinn að slíku hráefni á hagstæðum kjörum er forsendan fyrir því að reksturinn standi undir sér og skili arði. Skógarnir verða því að vera aðgengilegir um þjóðvegi og skógarslóðir. Oddbjørn Helland stýrir skipulagningu þessara vegamála fyrir hönd landbúnaðarsviðs fylkisins. Hann áætlar að leggja þurfi 140 km af nýjum bílvegum um skóglendi Rogalands á komandi árum og 50 km af traktorsvegum. Ef miðað er við að þetta verði gert á næstu tuttugu árum þarf að leggja um 7 km af bílvegum á ári og það þýðir að spýta þurfi í lófana miðað við það sem gert hefur verið í þessum efnum í fylkinu undanfarin ár.

Mikið er rætt um að auka nýtingu á trjáviði í tengslum við bindingu kolefnis og baráttuna við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ef viður er nýttur í varanleg mannvirki er kolefnið í viðnum bundið meðan mannvirkið stendur. Auk þess er kolefnislosun vegna smíði timburhúsa ekki nema brot af því sem fylgir smíði húsa úr stáli og steypu.

Byggt á frétt frá Helge Kårstad á vef Kystskogbruket 
Myndir: Helge Kårstad
Texti: Pétur Halldórsson